gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Eggin í Ródesíu...

sem nú eru þekkt sem eggin í óðaverðbólguríkinu Zimbabve kosta nú 35 milljarða Zimbabve dali stykkið skv. frétt á mbl.is í dag. Einhvers staðar las ég að þetta þætti nú mikið fyrir eitt hænuegg.

Sá mælikvarði sem oft er nefndur til að bera saman verð milli landa er raungengismælikvarðinn, sem eflaust getur verið erfitt að skilja, þar sem hann hefur enga mælieiningu en hann segir okkur hversu dýrari/ódýrari ákveðin vara er í viðmiðunarlandi. Út af því að ég fékk loksins í hendurnar algenga vörutegund sem ég get borið saman við sömu tegund hér á landi (þ.e.a.s. egg), þá langaði mig að gamni að athuga hvort 35 ma. ZWD séu í raun mikið fyrir eitt egg.

Úr Bónus fékk ég verðið 459 krónur á bakka með 10 eggjum (að vísu brúnum eggjum). Það gerir 46 krónur á eitt stykki egg í Bónus. Til að reikna út raungengið vantar mig því aðeins eitt til viðbótar, gengiskrossinn ISKZWD sem ég fékk á http://www.oanda.com/ í dag:

1 Iceland Krona (ISK) = 654,298,219 Zimbabwe Dollar (ZWD)

Þá er bara að reikna þetta með raungengisjöfnu sem miðar við verðlag: RER=P*/EP
þar sem RER er raungengi, P*er verð á eggi í Zimbabve, P er verð á eggi í Bónus og E er gengi á milli gjaldmiðlanna tveggja.

RER = ZWD 35.000.000.000/(654.298.219 ZWD/ISK x ISK 46) = 1,16287 !!!

Þetta staðfestir ekki þær vangaveltur að eitt hænuegg sé mjög dýrt í Zimbabve. Því ef eggin ættu að vera jafndýr milli landa þyrfti RER=1 en eitt egg í Zimbabve er s.s. ekki nema 16,29% dýrara en hér á landi!!! Það er ljóst að gengi Zimbabveísks dals veikist talsvert á móti verðbólgunni í Zimbabve. Kaupmáttur fólks vegna kaupa á eggjum er því greinilega ekki nema 16,29% lakari en hér á landi. Langaði bara að reyna að öðlast smá skilning á óðaverðbólgu því eggið í Zimbabve verður vafalaust orðið eitthvað dýrara á morgun en þó að við séum með litla verðbólgu hér á Íslandi miðað við þetta (13,6%), þá þarf greinilega ekki mikið til að viðskiptakjör okkar gagnvart Zimbabve versni!!!

mánudagur, júlí 28, 2008

Uppgjör hinna stóru...

Nú fer í hönd spennandi vika. Bankarnir munu skila uppgjörum sínum fyrir annan ársfjórðung ársins 2008. Athyglisvert er að bankarnir stóru (þ.e.a.s. Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Spron og Straumur) mynda rúm 83% af úrvalsvísitölunni og má því gera því skóna að líflegt verði á hlutabréfamarkaðnum í þessari vikunni. Svona leit markaðurinn út í dag til dæmis:
Talsverð lækkun í morgun en svo róaðist markaðurinn nú og hélt sér í 4.121 stigi undir lokun í dag (lækkun innan dags var -0,73%).Krónan heldur hins vegar áfram að veikjast og er það mikið áhyggjuefni þar sem hún fer nú að nálgast sitt veikasta gildi. Vísitölugildið undir lok dagsins var 166,5 stig en hæst hefur vísitalan farið í 169 stig.
Það verður Landsbankinn sem ríður á vaðið í fyrramálið og er því spennandi að sjá hvernig hreyfingar næstu daga munu líta út sér í lagi vegna lausafjársskorts undanfarinna missera og hugsanlegrar nýtingar veiks gengis til að bæta uppgjör.

föstudagur, júlí 25, 2008

Hvað var í fréttum í vikunni?

*Verðbólga skreið í 13,6% núna í morgun
*Karadzic var handsamaður í strætó
*Nakinn maður gekk á Esjuna
*Batman-myndin Dark Knight var frumsýnd

Já, þetta síðasta fór ég og upplifði ásamt þeim Gauta, Gunna, Óla og René kollega mínum úr Seðlabankanum. Við vorum allir frekar sammála því að myndin hefði verið góð. Ég að vísu veit nú ekki hvort hún sé svo góð eins og imdb.com fólk vill af láta. Þar er hún komin í fyrsta sætið og er þar að skáka hinni ódauðlegu mynd Godfather I. Ég veit ekki alveg með þetta. Skákar víst fátt Godfather I sem er að mínu mati önnur af tveimur bestu myndum síðustu aldar og þess sem af er 21. öldinni. Hin myndin er, tja reyniði bara að geta hvaða mynd ég er með í huga? Hef það sem smá flöskudagsleik hehe. Sigurvegarinn fær e.t.v. einn kaldan bjór hjá mér við tækifæri ef ég þekki viðkomandi þ.e.a.s.

En annars fannst mér Heath Ledger fara með leiksigur þarna. Synd að hann mun ekki fara í gervi Jokersins framar.

En þá er bara að vera duglegur í vinnunni, vakta bloggið fyrir hugsanlegum svörum og gera sig svo kláran í "Litla-Brún fyrir lengra komna" sem byrjar í kvöld.

mánudagur, júlí 21, 2008

Ætli það sé skárra á Zimbabve...

Vonum nú að ástandið fari nú að skána í hinu fyrrum stóra efnahagsveldi Zimbabve. Mugabe og Zvangirai hafa nú loks hafið viðræður um samstjórn en kallinn setti þau skilyrði að hvorki Evrópulönd né Bandaríkin kæmu neins staðar að. Að auki var gefinn út nýr peningaseðill sem hljóðar upp á 100 milljarða Zimbabveískra dali.

En svona til að setja efnahagsmálin í samhengi og að leika sér aðeins með tölur, þá fór ég aðeins að pæla því ég vildi sjá hvernig gengið á þessum gjaldmiðli væri gagnvart íslenskri krónu og þá kom í ljós eftirfarandi skv. oanda.com:

Monday, July 21, 2008
1 Zimbabwe Dollar = 0.00000000 Iceland Krona

... þetta gefur mér ekki alveg nógu haldgóða niðurstöðu og því prófaði ég hið öfuga hlutfall:

1 Iceland Krona (ISK) = 341,796,211 Zimbabwe Dollar (ZWD)

... s.s. til að kaupa okkar ágætu íslensku krónu þarf um 342 milljónir Zimbabveískra dollara sé miðað við gengið í dag.

Talandi um veika íslenska krónu!!!

miðvikudagur, júlí 16, 2008

Sá allra besti farinn

Já, þá er það víst komið á hreint. Ronaldinho er á leið til AC Milan frá Barcelona. Þó að ég hafi verið búinn að ganga frá tilfinningum mínum varðandi væntanlega sölu hans frá Barcelona þá er ég samt ennþá svolítið sorgmæddur yfir þessum fregnum. Málið er að sjónvarpsáhorfslega séð mun ég ekki geta fylgst með mínum manni nærri eins mikið í vetur, þar sem danskurinn sýnir ekkert frá ítalska boltanum á sínum hefðbundnu sjónvarpsstöðvum. Ég þyrfti því að fara að greiða fyrir einhvern aukapakka til þess að berja goðið augum hjá Milan. Var farinn að vonast til að Ronaldinho hefði farið til Manchester City, þar sem ég fer orðið til Manchester á ca. 2-3 ára fresti og því hefði verið hægt að skella sér á City völlinn í leiðinni. Það verður víst ekki, en þá er bara að sjá hvernig hann mun pluma sig á Ítalíu. Sparkfróðir hafa löngum sagt að ítalski boltinn henti honum betur og vona ég þá bara að það sé rétt.
Eiður Smári er þó ennþá í viðræðum við klúbba og einhversstaðar heyrði ég eflaust langsótt slúður um að hann gæti verið að fara til Inter Milan í stað einhvers af ensku klúbbunum. Ekki má gleyma að hinn Portúgalski Mourinho hefur tekið við lyklavöldum þar.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Skemmtilegt brúðkaup...

er nú afstaðið. Siggi og Sigrún (SigSigg hehe) eru nú með réttu hjón. Vona að laugardagurinn hafi verið yndislegur hjá þeim. Mjög falleg athöfn í Fríkirkjunni sló út allar áhyggjur vegna rigningar og ljóst að fólk var nú ekki mikið að láta smá bleytu hafa teljandi áhrif á sig. Helgi stóð sig sem sannur professional, þar sem segja má að hann hafi verið tónlistarstjóri athafnarinnar. Lék listilega vel brúðarmarsinn, bæði fyrir inngöngu og útgöngu, Lék Lizst alveg lizstavel, sem og Griegverkið sem segja má að hafi öðlast nýtt líf í höndum Helga frá því Kim Larsen flutti það á sínum tíma. Helgi stjórnaði líka Gleðikórnum lipurlega og svo mætti lengi telja. Er viss um að brúðhjónin hafi verið ánægð með strákinn og að hann hafi gert daginn eftirminnilegan fyrir þau og fjölskylduna alla.

Brúðkaupsveislan var sérdeilis prýðileg. Góður matur, veigar vel veittar, skemmtileg og hnitmiðuð skemmtiatriði og fínar ræður. Svo voru bara allir með góða skapið með sér og greinilega á þeim buxunum að fagna með Sigga og Sigrúnu enda ávallt gaman að vera þar sem þau eru. Dansiball að hætti Hillu sveik engan, en hún hafði einnig séð um tónlistina meðan á matnum stóð, og þá mátti heyra lög eins og Hvítu mávar og Eurovisionlög og alla flóruna þar á milli.

Síðan var skundað í smá eftirpartý hjá held ég Hirti vini hans Sigga, en við Hjörtur áttum það sameiginlegt þetta kvöld að rífa buxurnar okkar. Skemmtileg tilviljun. Hjá Hirti var gítar- og melódíkupartý í nokkurn tíma, þar til farið var í bæinn á Ölstofuna og 11una, þar sem mér þótti voða gaman að dansa með hendur upp í loft og gætti mín ekki á einum tímapunktinum þar sem gríðarlegur sláttur og sársauki gerðist í höndu mér. Eftir smá eftirgrennslan og kveinkan komst ég að því hvað hafði valdið þessum óbærilega sársauka en þá var það stærðarinnar vifta sem hafði slegist taktfast í hendina á mér. Eftir það var svo farið á Nonnabita og beint í ból.

Siggi og Sigrún, ég vil að lokum þakka kærlega fyrir mig. Ég skemmti mér konunglega!!! Þið eruð fríð í framan og megi framtíðin blasa við ykkur ;o)