gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Krefjandi tími framundan

Nú er nóvember að lokum kominn og flutningar á næsta leiti. Höfum nú pantað flutningabíl frá og með sunnudeginum næsta. Eftir að flutningum líkur taka svo við próf og verkefni sem standa yfir til 17. janúar hjá mér og 18. janúar hjá Kristínu. Eftir það tekur smá undirbúningur fyrir litlu stelpuna okkar sem er áætlað að komi í heiminn þann 22. janúar. Þá gefst smá tími til þess eins að njóta þess að eignast barn og hugsa ekki um neitt annað en það. Síðan mun skólinn byrja í febrúarbyrjun og er ég að vona að ég komist í gegnum alla þessa törn núna svo að næsta önn verði léttari. Get því ekki neitað því að námið sé að gera mér svolítið órótt núna.

En að léttara hjali. Kom úr tíma í hádeginu í gær og ákvað að skella mér á kebab í hádegismat áður en ég færi í tímann eftir hádegið. Komst að því að mig vantaði pening í veskið svo ég hélt af stað inn á Gammel Torv til að ná mér í pening úr hraðbanka (Jyske Bank).

Þegar ég er rétt ókominn að hraðbankanum þá mætir mér maður sem var mér ansi hreint kunnugur. Snyrtilega, eiginlega svolítið töff klæddur kemur hann þarna með stingandi augnaráð og alveg óendanlega svalur. Það sem gerði þetta að vísu svolítið einkennilegt var að þessi óendanlega kaldi gaur var með kebabrúllu í höndum sér sem gerði þetta bara meira töff þar sem ég var nú með kebab efst í huga. Þarna var s.s. kominn Mads Mikkelsen Bond vondi kall. Það er ekki laust við að hann hugsi eins og ég :o)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Ísland - Danmörk

Nei þetta er ekki neinn landsleikur. Ég er bara búinn að vera á ferð og flugi. Fékk óvænta afmælisgjöf frá mömmu og pabba um daginn og var það ferð til Íslands. Ég var ansi spenntur og þáði boðið með virktum.

Komum til Íslands í -7° frosti og var ég á tímabili farinn að halda að ég fengi krampa. Í Danmörku hefur ekki verið neitt svakalega kalt, sem er frekar óvenjulegt held ég á þessum árstíma.

Fór í grímupartý þann 18. nóv. dulbúinn sem draugur ásamt Þóri sem kom heldur betur á óvart. Hafði orðað við mig að hann skorti peysu sem hann skyldi eftir á Íslandi og þurfti nauðsynlega að ná í til Íslands.

Síðan varð klukkan 12 á miðnætti og þá hófst gríðarlega mikil snjókoma og læti. Ekki voru lætin afstaðin í bráð, þar sem ég bætti á mig enn einu árinu og varð 27 vetra gamall í öllu fárinu. Um nóttina gekk svo ansi illa að fá leigubíl en það tókst upp úr sólarupprás.

Fór síðan austur með Kristínu upp úr hádegi þann 19. nóv, í mitt eigið kaffi- og matarboð á Selfossi og verð ég að segja að ég hef trúlega aldrei borðað jafn mikið. Jólin ná vart að toppa þennan dag. Hitti ömmu og afa, og fjölskyldumeðlimi sem mér þótti ansi vænt um að gátu séð sér fært um að heimsækja mig.

Síðustu dagar ferðarinnar til Íslands voru svo notaðir í afslappelsi og útréttingar.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Heimsóknahrina í borg Absalons

Þá er lífið farið að vera "venjulegt" á nýjan leik. Höfum lifað hálfgerðu túristalífi hér í Kaupmannahöfn undanfarið. Margir góðir gestir hafa komið og litið í heimsókn í litla kotið okkar. Í september komu Andy og Ágústa alla leið frá Manchester England England. Í október komu mamma og Magnús bróðir. Í byrjun nóvember komu Jón Ólafur og Gauti í heimsókn og nú um daginn var Gunni Þorgils í heimsókn ásamt föruneyti. Litum svo við hjá Ingva og Möggu í mat í gærkvöldi og hittum Bjössa og Þórunni verðandi hjón, en þau voru í heimsókn.

Ég ætla nú ekki að vera með eitthvert vanþakklæti en mér fannst maturinn sem var boðið upp á, ja... spes skulum við segja.