gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, október 24, 2007

Haustfríinu lokið...

Þá er haustfríinu lokið og get ég bara verið súr yfir því, þar sem ekki náðist að gera neitt í því vegna veikinda, en ég nenni ekki að hugsa meira um veikindi orðinn ansi hreint þreyttur á þeim.

En nú er komið rétt svar við 2. umferð Gúgglileiksins og var Hákon á ferðinni með rétt svar, Hilla pínulítið of sein en svona er þetta. Hákon hlýtur þ.a.l. 3 stig í baráttunni við Þóri og tekur þar með forystu.

Staðan eftir 2 umferðir:

1. Hákon 3 stig.
2. Þórir 2 stig.

föstudagur, október 19, 2007

Flöskudagur án flösku...

Já, úr því að fámennt er í henni Kaupmannahöfn af þeim sem ég þekki, þá er bara best að sitja heima með fjarstýringuna í hönd á þessu fína föstudagskvöldi. Öll kveisa er úr manni farin og má slíkt hið sama segja um Emilíu litlu og finnst mér það nú mikilvægara.

Ekki líður á löngu þar til við fjölskyldan förum til Manchester og er tilhlökkun nokkur hér á bæ. Að vísu verðum við af hinu feiknavinsæla leikriti Benedikts Erlingssonar "Mr. Skallagrímssyni" sem einmitt verður flutt í Kaupmannahöfn í lok mánaðar, en þá verðum við á bak og burt. Til að draga úr gráti og gnýstan tanna tók ég mig því til og las Egils sögu um síðustu helgi en það hafði ég aldrei gert áður. Ég verð nú samt að segja að með þessum gjörningi hef ég trúlega bara gert illt verra, því nú langar mig sem aldrei fyrr að fara og sjá verkið. :o(

En þannig er nú bara það. Þá er það þriðja vísbending í gúgglileiknum, en margar góðar uppástungur komu fram en ekki var um rétt svar að ræða í þetta sinnið.

Gúgglileikurinn

2. umferð: Þriðja vísbending. 3 stig.

Konan var frá Asíuríki.

miðvikudagur, október 17, 2007

Merkisdagur...

Já, það er rétt, þessi dagur í dag er merkilegur fyrir það eitt að nú eru 5 ár síðan ég hóf að blogga á veraldarvefnum, og af því tilefni væri gaman að rifja upp hvað ég var að blaðra þann 17.10.2002:

"Jamm...nú er maður kominn á veraldarvefinn loksins, og var hann ekki fundinn upp fyrir fjórum áratugum í formi arpa-netsins sem átti að þola kjarnorkustyrjöld og allan fj..... Það er því tími til kominn, á meðan arpanetið (þekkt sem Internetið í dag) þolir álagið, að maður geti tjáð sig á þessum síðustu og verstu........ þegar Bush hefur einmitt kallað yfir okkur eina slíka styrjöld. gemill"

Ja, sem betur fer hef ég ekki verið alveg sannspár með kjarnorkustyrjöldina :)

laugardagur, október 13, 2007

Haustfrí...

Þá er haustfríið hafið í skólanum og mun standa yfir í viku. Í Kaupmannahöfn er einnig menningarnótt (Kulturnat) svo það á að vera af ýmsu að taka, en maður einhvern veginn er í engu stuði svona rétt nýstiginn upp úr hitarugli. Því ver ég bara tímanum með því að glápa á vonlausa imbakassann. Reyndar var einnig glápt á leik Dana og Spánverja sem fór 3-1 fyrir spanjólana.

Við fjölskyldan vorum svolítið heppin í dag, því við fengum að láni Honda jeppling til að komast í IKEA að versla. Mikið þarfaþing að fá bílinn og gaman að keyra um Köben á eigin forsendum. Keyptum m.a. lampa og hillu.

En ætli ég setji ekki eins og eina vísbendingu í gúgglileiknum þar sem sá eini sem spreytti sig á fyrstu vísbendingu (Þórir) náði ekki að koma með rétt svar.

Gúgglileikurinn

2. umferð: Önnur vísbending. 4 stig.

Æska konunnar varð talsvert fyrir áhrifum af opinberu og pólitísku lífi foreldra hennar.

miðvikudagur, október 10, 2007

Veikiblogg...

Úr því að maður er veikur í Kaupmannahöfn, er ekkert því til fyrirstöðu að blogga smávegis loksins.

Já, við Emilía höfum greinilega náð okkur í einhverja heavý pest á vöggustofunni þar sem við erum bara tvö ein heima núna hóstandi í takt og sjúgandi upp í nefið í góðu bíti. Hálsbólga er einnig að gera amk mér lífið leitt og hitaslæðingur einnig. Það er bara ekki til neitt leiðinlegra en að vera veikur finnst mér. Maður nennir engu sem maður var búinn að áveða að gera en ég fékkst þó til að blogga smá sem er heilmikið afrek.

Annars er kórinn kominn á fullt, búið að halda stjórnarfund, þar sem 20+ íslendingar töluðu hver ofan í annan á dönsku (vegna þess að kórinn hleypti dönsku pari inn). Kórstjórinn okkar talar líka dönsku og getur verið dálítið einkennilegt að fylgjast með þegar verið er að biðja um hina og þessa raddbeitingu hehe.

Við höfum verið ansi hreint dugleg að bjóða í mat undanfarið (leiðrétting, bjóða fólki að koma að elda). Þórir hefur einkar gaman að prófa sig í eldhúsinu og er þetta einskonar win-win situation. Nú mun draga úr eldamennsku Þóris þar sem þau Sigrún eru komin í mun stærri og hugsanlega betri íbúð á Vatnsleysu, enda kalla ég Þóri hér eftir: greifann af Vatnsleysu (d. Vanløse).

Ég fékk þó að halda eins og eitt Shawarmaborgarapartý hjá Vatnsleysugreifa sem gekk í alla staði mjög vel. Þórir svaraði því svo með hamborgarahryggskveðjuboði fyrir Björn sem ég efast um að geta slegið við.

Pókerinn er kominn á fullt aftur eftir smá hlé. Höfum nú farið til Jóns Viðars aðra hverja helgi og stefnum á að halda þeim sið áfram í nánustu framtíð. Fleiri hafa bæst í hópinn frá því í fyrra og má þar nefna, Hákon, Ingva og Lillý dansk/kanadíska vinkonu okkar Ketils úr CBS. Ekki er ég búinn að segja allt um spilaæði mitt, þar sem ég þróaði gríðarlegan áhuga fyrir Carcassonne spilinu sem einhver kom með í Gleðikórsferðina í sumarlok. Fór um daginn og keypti mér spilið ásamt smá viðbótum og höfum við Kristín verið að spila þetta undanfarið.

Þannig að það er svona allt og ekkert að gerast í henni Köben, ekkert t.d. núna, þar sem téð veikindi eru til staðar.

Ætli ég skelli ekki einum "gúggli"-leik inn núna: (Ætli ég kalli spurningaleikinn minn ekki bara það).

Gúgglileikurinn

2. umferð: Fyrsta vísbending. 5 stig.

Spurt er um konu.
Konan náði ákveðinni sérstöðu í heimalandi sínu.