gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, september 30, 2003

Jæja, þá er minn síðasti dagur í vinnunni alveg að fara að klárast. Ég er búinn að hafa mjög gaman af þessu. Skemmtilegir starfsmenn og þvílíkir stuðboltar. Það hefur sennilega aldrei verið djammað eins mikið á öðrum vinnustöðum sem ég hef unnið á. Framundan eru verkefni og yfirseta yfir skólabókum þar sem allt of mikið hefur setið á hakanum. En þetta verður vonandi ekki svo leiðinlegt.

mánudagur, september 29, 2003

Eftir væna vínsmökkun á föstudag var haldið heim og hélt ég mig þar allt kvöldið og horfði á sjónvarpið og gerði ekkert. Kristín fór í partý í Garðabæ svo ég var bara rólegur og sofnaði ljúft.

Á laugardagsmorgunn vaknaði ég endurnærður og skaust í bakarí og verslaði bakkelsi fyrir okkur áður en ég fór í dæmatíma. Að hugsa sér að þurfa að vera í tímum á laugardögum. Laugardagskvöldið átti nú líka að vera rólegt þar sem Kristín fór í Leiklistarskólapartý og ég ætlaði að vera heima, en þá hringdi Jón Ólafur og kom við hjá mér. Hóa leit einnig við en stoppaði frekar stutt. Ákváðum við Jón Ólafur því næst að fara á pöbbarölt. Byrjuðum á Kapítal og hittum þar Gauta. Við stoppuðum þó ekki nema svona hálftíma þar og héldum svo leið okkar áfram. Næsti viðkomustaður var Celtic Cross, sá ágæti staður. Þar gátum við sungið með sennilega lélegasta trúbador í heimi, það var alveg sama hvað maður kom með mörg óskalög, hann þekkti ekkert af því. Nefni ég dæmi um Bubbalög!!! Þarna á Celtic rakst ég á ótrúlega marga frá FSu árum mínum, t.d. manninn sem drakk bara appelsín og fór í messu á sunnudögum, en var svo fallinn fyrir Bakkusi á nýjan leik. Þeir bræður Runni og Palli stungu hausnum inn og ætlaði Runni ekki að kannast við mig fyrr en eftir slatta af hintum og þá sagði hann bara, ,,Já, Gaui!! VÁ, þú hefur örugglega þyngst um 10 kíló síðan síðast!!!!!" Þetta er nú sennilega rétt hjá manninum en þarf virkilega að RÖBBA ÞESSU SVONA INN??? Við Jón fórum svo og hittum Kristínu í Leiklistardjamminu og var heljar fjör þar. Kristín dansaði gat á skóna og held ég að vinkonur hennar hafi einnig gert hið sama.
Fórum að þessu loknu á Glaumbar og þar hitti ég slatta af Selfyssingum í viðbót. Gaman að því. Við vorum töluvert lengi að verð ég að segja og héldum til heimahúsa um klukkan 5!!

Sunnudagurinn einkenndist síðan af dugnaði!!!

föstudagur, september 26, 2003

Nú klukkan svona hálf fimm mun verða kátt á hjalla í vinnunni. Hún Bryndís ætlar að vera svo góð að bjóða okkur í rauðvín þar sem hún vann Rauðvínspottinn síðast. Mér finnst þetta ótrúlega rausnarlegt og ætla að sjálfsögðu að leggja mitt að mörkum við vínsmökkunina enda mörg hver úrvalsvín.
Helgin verður frekar róleg, þ.e. ekkert hefur verið planað en ef einhver veit um eitthvað þá er aldrei að vita að maður sé geim.

fimmtudagur, september 25, 2003

Fór í dæmatíma í Fjármálum eignastýringu í gær og er þetta fyrsti tíminn sem ég fer í í því faginu. Mér krossbrá þegar ég sá bókina, eitthvert 900 síðna flykki og svo voru kennararnir búnir að fara yfir 1. - 6. kafla og ég ekki einu sinni búinn að kaupa bókina (þar sem ég er alltaf að vinna til 5 og kemst aldrei hehe). Góð afsökun það. Ég myndi sennilega aldrei meika eitthvað svona fjarnám, því ég þarf að sitja við í 5-6 tíma til að koma mér í gang. Ef ég væri að vinna allan ársins hring myndi ég aldrei nenna svo mikið sem leggjast upp í rúm að lesa bækurnar fyrir svefninn!!

mánudagur, september 22, 2003

Föstudagurinn var tekinn í vísindaferð í LÍÚ. Þeir tóku vel á móti okkur og veittu vel að auki. Þeir voru ekki með svona fyrirfram planaðan fyrirlestur á Power Point formi, heldur voru bara óskipulagðar umræður á dagskránni. Mjög svo áhugaverðar pælingar þar sem þeir tókust á innanhússmenn.
Á laugardaginn var svo smá dekurdagur hjá okkur Kristínu og var því farið á Apótekið að borða um kvöldið og fékk ég mér lambafilé sem bráðnaði alveg í munni. Kristín fékk sér kjúkling, síðan fengum við okkur eftirrétt. Ekki verður farið út í hvað herlegheitin kostuðu. Það er gaman að geta þess að Dr. Jeffrey Sachs nóbelsverðlaunahafi í hagfræði var á næsta borði ásamt fríðu föruneyti. Seinna um kvöldið var síðan farið á Nesveginn til þeirra Krunku, Þengils og Siggu og fengið sér bjór og hvítvín í rólegheitum með tilheyrandi söngli og spili.
Á sunnudaginn var sko rok og því hálfleiðinlegt að vera úti, því var hann notaður í viðskipti í Krónunni og áhorf á leik Real Madrid og Malága. Þetta var þrusuleikur og skoraði Beckham alveg gríðarfallegt mark beint úr aukaspyrnu. Síðan skoraði leikmaðurinn Edgar hjá Málága eitthvert það allra fallegasta mark sem ég hefi séð. Hjólhestaspyrna af bestu gerð.

föstudagur, september 19, 2003

Hlutirnir gerast hratt, því Íslandsbanki er búið að kaupa rúm 44% í Sjóvá. Síðan hefur Íslandsbanki gert framvirkan kaupsamning við Burðarás um kaup á 11,4% í Sjóvá til viðbótar. Eftir þessi viðskipti verður hlutur Burðaráss í Sjóvá enginn. Landsbankinn er svo að kaupa núna í Eimskip og síðan er búið að gera samning um kaup Íslandsbanka í Straumi. Þetta er sannkallað Matador.
Fór með nokkrum vinnufélögum á Enriqos sem er nýr staður þar sem Kaupfélagið var áður. Það var verið að opna hann og var Íslandsbanka boðið í léttar veitingar. Þetta er svona kósý staður sem gott er að líta við og fá sér kaffi, rauðvínsglas eða eitthvað matarkyns í þægilegheitum. Fékk mér smá bjór og hvítvín og mætti svo nokkuð góður á kóræfingu í gærkvöld. Kristín fór svo í ,,saumaklúbb" og var ég heimavið allt kvöldið og lét mér leiðast.
Eftir vinnu er ég að hugsa um að drífa mig í vísindaferð í kvöld með Ökonomiu. Ég held að vísindaferðin verði haldin í LÍÚ.
Það eru spennandi tímar í sögu fyrirtækisins á næstunni. Bankinn spornar við aukinni samkeppni með því að kaupa þriðjungs hlut í Sjóvá Almennum. Þetta verður spennandi, já já.

fimmtudagur, september 18, 2003

25 %

My weblog owns 25 % of me.
Does your weblog own you?


Bloggið MITT á bara fjórðung í MÉR!!!
Hvað á ÉG þá mikið í MÍNU bloggi?

miðvikudagur, september 17, 2003

Svakalega var ljúft að horfa á Meistaradeildina í gærkvöld eftir kóræfingu. Missti þó af Manchester - Panathiakos en missti að sjálfsögðu ekki af Real Madrid - Marseilles , það er hrein unun að horfa á þessa listamenn í Real, ekki ónýtt að hafa Zidane, Ronaldo, Figo, Roberto Carlos, Raúl og David Beckham í sínu liði. Þetta var algjör veisla. 4-2 fór leikurinn, Ronaldo með 2 Figo og Roberto Carlos með sitt hvort markið. Það sem mér finnst svo flott eru þessar ÓTRÚLEGU sendingar Beckhams. Hann sendi boltann fyrir markið og Roberto Carlos tók hann bara viðstöðulaust á lofti og hamraði í netið eins og ekkert væri, svona er náttúrulega list. Figo tók víti í vinstra hornið sem hann skoraði úr en það var dæmt af einhverra hluta vegna, því þurfti hann að taka það aftur og setti boltann bara aftur í sama hornið, þvílík bíræfni!!!!

þriðjudagur, september 16, 2003

Á föstudaginn í vinnunni var haldin Kókosbollukeppni. Keppendur voru þeir Einar og Jökull. Það er skemmst frá því að segja að Jökull vann 4 1/2 - 3 . Ég var línuvörðurinn.

Um kvöldið var síðan farið á Gaukinn til að hrista saman nýja kórlimi og í leiðinni farið á Írafársball sem þar var haldið seinna um kvöldið. Það var sko hrein snilld. ég held við Kristín höfum aldregi farið af gólfinu, dönsuðum allt ballið. Bara skemmtileg lög. Ýmsar uppákomur áttu sér stað og voru tilteknir aðilar ekki lengi að afla sér vinsælda hjá nýjum kórstúlkum. Gaman að þessu og þá sérstaklega á æfingu í kvöld. Það verður nú meira hrafnaþingið. Ég gerði þó ekkert af mér.
Á laugardagskvöld fór Kristín á Reunion hjá ML nemendum og ég fór í afmæli hjá Valda og Tona sem haldið var hjá Tona og lufsu hans. Þetta var mikið söngpartý. Sungið langt fram eftir kvöldi. Ekkert var nú hljóðfærið svo það var ekkert annað í stöðunni en að taka forsönginn bara.
Á sunnudag var farið austur á Eyrarbakka í hamborgarhrygg hjá tengdó. Þetta var síðasta kvöldmáltíð Ágústu sem var að halda til Manchester á mánudaginn. Þau Ólöf og Rúnar komu með okku Kristínu. Soffía vinkona Ágústu og amma Kristínar voru borðgestir. Stoppuðum stutt við á Selfossi til að heilsa upp á heimilisfólkið í Gauksrima 6.

föstudagur, september 12, 2003

Nú er sko nóg að gera í kvöld. Ætla að fara á Írafár á Gauknum í kvöld. Kórinn ætlar að hrista sig saman við nýja meðlimi eins og gert var í fyrra. Þannig að það verður sko stuð. Hér í vinnunni er búið að skora á Einar og Jökul að keppa í kókosbolluáti og skilst mér að ekki megi nota hendurnar. Þetta verður því eins konar SPK fílingur frá því í gamla daga, (þátturinn með slíminu þið munið). Eftir vinnu er stefnan tekin á ræktina, því nú er maður kominn í þjálfun á ný eftir mánaðarlangt frí frá í ágúst. Stefnan er sett á 100 kg í bekk fyrir jól.

mánudagur, september 08, 2003

Fórum í þessa líka ágætu útskriftarveislu á föstudagskvöldið hjá honum Jóni Sigurði. Hann var að útskrifast úr Stærðfræði með B.S gráðu úr Háskólanum. Við fórum á leigubíl með þeim Rut, Stebba, Herdísi og frönskum vini hennar. Í veislunni hitti ég þó nokkra Selfyssinga, þá Stebba Jökul og Jenna og var Ásta einnig á staðnum. Þarna voru líka Margrét og Einar. Mikið skemmtilegt partý með tilheyrandi Radiohead- og Bítlamúsík. Fórum svo í bæinn og kíktum við aðeins á PRAVDA (gamla Astró), mikið er búið að breyta þessu.
Á laugardaginn horfðum við Valdi og Alexander á Ísland - Þýskaland, ég veit ekki hvort sófinn sem við sátum í sé í lagi eftir þennan leik. Ég var alveg að losna á límingum sérstaklega þegar Þjóðverjar björguðu tvívegis á línu. Alveg rosalegt svekkelsi að skora ekki. Búnir að koma boltanum fram hjá Kahn en samt einhvern veginn tókst ekki að koma blöðrunni yfir línuna.

fimmtudagur, september 04, 2003

Í kvöld er komið að mikilvægri stund í lífinu, nefnilega fyrsta kóræfing vetrarins. Spennandi að hitta allt fólkið aftur og fá að vita hvað stórvirki verða á efnisskránni í vetur. Ég væri sérstaklega til í að taka Agnus Dei sem mér finnst vera gríðarlega flott verk. Einnig verður gaman að vita hvernig prógrammið verður á ýmsum viðburðum og svo hvort okkur bætist góður liðsauki. Sem sagt allt voða skemmtilegt. Vona bara að við tökum af dagskrá einhver af þessum lögum sem við höfum sungið frá upphafi tíma. Meina það sko, hef sungið Krummi krunkar úti frá því 1996!!!!!

miðvikudagur, september 03, 2003

Á föstudaginn var starfsmannagleði hér í bankanum. Sett var upp tjald úti á plani og grillað. Einn gamall nikkari kom á svæðið og lék lög á meðan borðað var og söng fólk hástöfum. Ótrúlega skemmtilegt að vera í svona útilegu í miðborginni. Einn og einn róni leit þó við. Bankinn færði okkur sumarstarfsmönnum veglegt gjafabréf á Apótekið en ætlunin var að kveðja okkur sumarfólkið formlega. Eftir að hafa etið á sig gat var haldið á Café Romance. Þar var víst píanó og var maður því fenginn ásamt Einari til að leika á það. Barþjónninn dældi í mann drykkjum og fékk mann til að vera lengur og kallaði svo á mann seinna um kvöldið til að spila meira. Alveg magnað hvað hún Alla í bankanum kann að syngja mörg lög. Þetta var hin mesta skemmtan. Við Einar fórum síðan í partý á Kárastíginn og þar hitti ég Kristínu og hennar vini. Einar fór eftir svona hálftíma 3 kortér en við Kristín entumst eitthvað lengur.
Á laugardaginn fórum við austur fyrir fjall á Eyrarbakka og höfðum það bara rólegt og síðan á sunnudaginn var púlsinn tekinn á Selfossi.