gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Já, að hlaupa...

Þakka fyrir góðar undirtektir í garð þessa nýja útlits. Síðast þegar ég var að skrifa var Reykjavíkurmaraþon Glitnis yfirvofandi. Ég skellti mér í hálfmaraþon og náði tímanum: 2 klst. og 9 mín. skv. flögutíma. Byssan gaf mér tímann: 2 klst. og 10 mín. Skemmst er frá því að segja að ég er mjög ánægður með tímann þar sem ég hafði búist við mun slakari tíma. Þá er næst ekki hægt annað en að komast þetta undir 2 klst. hehe.

Nú er annars næstsíðasti vinnudagurinn minn í sumar og Kaupmannahafnarflug yfirvofandi á morgun föstudag. Þá munum við fjölskyldan kveðja Ísland þangað til um jólin.

Önnur umferð kemur von bráðar.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Allt að verða klárt...

Þá eru hlaupaskórnir komnir í höfn. Fór í gær að versla Asics-skó í Útilífi. Þar er mjög gott úrval af skóm, hafði nefnilega gert heiðarlega tilraun í annarri sportvörubúð sem var vægast sagt með slakt úrval af hlaupaskóm. En ég er svolítið ánægður með þessa skó þar sem þeir eru með góðum geldempara og innanfótarstyrkingu.

Hafði verið skammaður fyrir að vera að æfa á gömlu skónum mínum sem voru ekki beinlínis ætlaðir fyrir langhlaup. Er búinn að taka stutt prufuhlaup á nýju skónum og virðast þeir falla vel að fótunum og verður gaman að nota þá í mínu fyrsta hálfmaraþoni í fyrramálið. Nú ætti ég að sleppa við hnjáeymslin sem svo allt of lengi hafa verið að pirra mig.

Jæja, þá er komið rétt svar við fyrstu umferð leiksins góða og var þar á ferð Þórir sem gat rétt upp á tónlistarmanninum. Þetta er að sjálfsögðu hinn mislyndi Phil Spector sem hér var spurt um og hlýtur Þórir 2 stig fyrir svar sitt. Þórir tekur þar með forystu í leiknum.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Gott tilboð...

Væri nú ekki gaman að hafa París Hilton sem veislustjóra í 25 eða 30 ára afmælinu. Ég er handviss um að það yrði þvílíkt fjör. Hún gæti vel haldið uppi stemningu. Ég væri alla vegana ekki á móti því. Hvað segiði, mynduði mæta af ég héldi eitt svona partý?

Verð samt að vara fólk við því að ég yrði að rukka fyrir aðgang, þar sem hún hefur tjáð mér að hún vilji litla 500 þúsund dollara fyrir veislustjórnunina. Það er ekkert mál að redda salnum svossem, kaupi bara kút af bjór á einhverjum stað og þá er bara að redda kjellingunni.

Eigum við að segja að gestafjöldinn yrði í kringum 200 manns og þá yrði aðgangseyririnn ekki nema um 2.500 dollarar, er það ekki vel sloppið? Ég myndi náttla bjóða upp á bjór og tæki þann kostnað á mig sko!!! ;o) Gæti líka fengið Blásýru til að spila. Þá er sko komið geggjað partý!!!

En jæja næsta vísbending. Ekki náðist að svara þessu í þetta skiptið en nú hlýtur að fara að koma að því.

1. umferð: Fjórða vísbending. 2 stig.

Tónlistarmaðurinn þykir vera sérstakur í háttum. Hann hefur oftar en einu sinni notið hjálpar skammbyssu í hljóðveri m.a. til að fá samstarfsmenn sína til að spila tímunum saman lög sem betur mega fara (að hans mati). Sumir þessara samstarfsmanna eru vel þekktir tónlistarmenn.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Fimm dagar í Reykjavíkurmaraþon Glitnis 2007...

Þá er ekki langt í að ég taki á rás í mínu fyrsta hálfmaraþoni. Æfingar sem hófust í Kaupmannahöfn í maí hafa verið að vísu misstífar en smá veikindi settu strik í reikninginn í júlí. Varð því að breyta áætluninni nokkuð og er þess vegna ekki eins vel undirbúinn og ég hefði viljað.

Það sem ég missti úr á sínum tíma er nefnilega ekki hægt að ná upp núna síðustu dagana fyrir hlaupið, því ekki er mælt með löngu æfingarhlaupi svo skömmu fyrir hálfmaraþon. Vikan mun því helgast af léttum og stuttum hlaupum og svo er bara að sjá til hvort vel til takist á laugardagsmorgun kl. 09.10.

Svona til að setja sér smá markmið, þá var það nú til að byrja með að komast alla leið, sama þó það hefði tekið einhverja daga. En ætli maður reyni ekki að setja markið í kringum 2 klst. og 50 mín. En ef það tekst ekki, þá alla vega undir 3 klst.

En þá er það leikurinn.

1. umferð: Þriðja vísbending. 3 stig.

Tónlistarmaðurinn þróaði nýja stefnu í hljóðvinnslu og upptökutækni á sínum tíma.

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Vonsvikinn...

Við Kristín fórum í bíó á sunnudagskvöldið. Séð var myndin: The Simpsons. Skemmst er frá því að segja að við urðum fyrir allmiklum vonbrigðum með hana. Mikið var búið að tala um hversu góð þessi mynd átti að vera og fóru því væntingar okkar á flug. Myndin náði því ekki að mæta auknum væntingum okkar.

Simpsons voru að mínu mati einna bestir frá seríu 1 til 7. Eftir það hafa þeir verið í einhverri smá kreppu og hélt ég að þessi mynd myndi nú koma uppgangi af stað en svo virðist ekki vera.

Jæja, þá er það leikurinn.

1. umferð: Önnur vísbending. 4 stig.

Tónlistarmaðurinn hefur talsvert mikið unnið í Bretlandi þótt hann sé bandarískur.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Viðreisn...

Til að reisa þetta blogg aðeins við, þá fannst mér löngu kominn tími til að fríska aðeins upp á útlit þess. Veit líka að gamla útlitið var orðið lúið og seinvirkt í keyrslu. Mér fannst einnig vel við hæfi að hefja aftur spurningaleikinn minn góða (sem reyndar hefur aldrei hlotið nafn). Geri reyndar ekki ráð fyrir mörgum svörum fyrst um sinn, þar sem margir verða ónettengdir í tjaldútilegum vegna Verslunarmannahelgarinnar.

Eins og áður verða spurningarnar í formi vísbendinga sem gefa 5 stig, 4 stig og svo koll af kolli niður. Hver og einn má ekki svara nema einu sinni hverri vísbendingu. Nú er spurning hvort einhver skáki meistaranum frá því um mitt síðasta ár, honum Baldri. Það verða eins og áður 20 umferðir.

Hefst þá leikurinn.

1. umferð: Fyrsta vísbending, 5 stig.

Spurt er um tónlistarmann.
Hann spratt fyrst fram á sjónarsviðið á sjöunda áratugnum.

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Þá er maður orðinn hafnfirðingur...

Við Kristín og Emilía erum nú komin á fjórða staðinn af hugsanlega fimm í sumar. Það ku vera heimabær FH-inga sem eru svo gott sem dottnir út úr meistaradeildinni en það er nú önnur saga.

Í þetta sinn er um að ræða 130 fm íbúð, með bílskúr og gróðurhúsi en sú fyrri var 110 fm. Það er alltaf verið að stækka við sig sko. Veit nú ekki alveg hvað ég á að gera við gróðurhúsið en það er þó svolítið gaman að því en þar eru ræktaðar kryddjurtir og mín uppáhalds er auðfundin þar, myntan.

Nú er hægt að blanda mojitoinn með lífrænt ræktaðri myntu. Ekki ónýtt. Feðgarnir á þessu heimili eru miklir Manchester Utd aðdáendur, og reyni ég mitt besta við að þola áreitið.

Emilía var svolítið óróleg fyrstu nóttina í nýju ferðarúmi sem við foreldrarnir fjárfestum í í Rúmfatalagernum. Ansi sniðug græja, því hægt er að pakka rúminu saman og hafa það með sér hvert á land sem er.

Svo er maður með nýjan hverfispöbb, nefnilega: A. Hansen. Þar skilst mér að mann að nafni Ketill megi finna buxnalausan á sunnudögum.