gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Það er ótrúlegt hvað maður hefur fengið slöpp viðbrögð frá fólki, hvað skal gera um komandi verslunarmannahelgi. Það virðist bara enginn vera að fara að gera neitt eða hvað?

mánudagur, júlí 28, 2003

,,Það var gott við grilluðum, í góðu veðri á svölunum."

Já, við Kristín fórum á Selfoss á laugardaginn og sóttum þau Þengil og Hrafnhildi heim í Grashagann. Fyrst var farið í kaupfélagið (Nóatún) og verslað í matinn og síðan hafist handa við að grilla lamb og naut. Mjöður var sopinn með. Þetta var alveg prýðiskveld og má með sanni segja að svona fámenn kvöld séu góðmenn.
Eftir matinn var farið í hið sívinsæla samkvæmisspil Trivial Pursuit hið ljósbláa. Upphófst þá hin mesta keppni og þó svo að ég hafi staðið skil á tónfræðispurningunum þá tókst mér nú ekki að sigra því sigurvegarinn var Kristín og svo Hrafnhildur í öðru. Við skulum ekkert tjá okkur um framhaldið. Oft komu fyndnar spurningar, eins og: ,,Hver hlaut silfurskóinn á nýafstöðnu Íslandsmóti í knattspyrnu karla (1986)?????" How should I know?? Eftir fjögur var svo skrönglast heim á leið í rimann. Sunnudagurinn var svo notaður í heimsóknir og eitt stykki afmæli og var mikil þreyta þann daginn.

fimmtudagur, júlí 24, 2003

HVAÐ ER AÐ KOMMENTAKERFI Klink fjölskyldunnar!!!!!???

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Helgin var fín. Litli Brúnn stóð sko undir væntingum. Var að til klukkan 7 um sunnudagsmorguninn. Var reyndar í sumarstarfsmannagleði með Íslandsbankafólkinu á föstudag. Boðið var upp á rauðvín eftir vinnu og svo var farið í partý til hennar Hjördísar og þar snakkað og sungið og drukkið áður en farið var á Hverfisbarinn þar sem mér tókst að slasa hana Huldu í rokksveiflu. Á laugardaginn var svo byrjað á að fara í sund og síðan um klukkan 19.00 fór ég í brúðkaupsveislu til að spila undir hjá þeim feðgum Hjalta og Rúnari. Þeir voru fantagóðir og vöktu mikla lukku. Þar hitti ég hana Margréti (Biddu) og var hún frekar svekkt yfir að komast ekki í ferðina.
Eftir brúðkaupið var brunað í Þrastalund þar sem Litli-Brúnn var samankominn. Kristín tók mér eins og frelsishetju og kyssti mig og kjassaði þegar ég kom þarna klifjaður ýmsum pinklum.
Hófst fljótlega mikil grilllota með nýja grillinu mínu og tókst það allt vel að lokum þó brösulega hafi gengið að kveikja upp í því. Síðan var farið í ýmsa leiki og man ég ekki betur en það hafi verið samdir a.m.k. 2 textar við lög auk þess sem Shawn frændi kom með ,,Little Bridge" lagið 2003 sem hét Iceland og hófst á orðunum: ,,I dont believe Paul Simon, I prefer John Dunn." Var þá fjörið byrjað af alvöru og stóð það til um 9.00 um morguninn er mér sagt. Þvílík partýdýr í kórnum. Ég ruglaðist nú smá á tjöldum og var það ekki von þar sem mörg tjaldana voru kúlutjöld eins og mitt, en það var nú reyndar A-laga tjald gult að lit sem ég seildist inn í. Brátt fann ég þó mitt bláa kúlutjald.
Eiki úr vör var mættur þarna og var tekið vel á móti kauða með laginu: ,,Páskarnir eru í nánd" en það er frumsamið eftir þau systkini Siggu og Eika. Drengurinn fór nú bara á kostum á gítarinn og þykir mér ótrúlegt hvað hann kunni mikið af lögum. Um kvöldið slóst svo Áki, local drykkjumaður, í hópinn en hann var maðurinn með gítarstrengina og landann þetta kvöldið. Hvaðan hann kom eða hvert hann var að fara, veit ég ekki. Hann greip þó stundum í gítarinn þegar Eiki þurfti frá að hverfa vegna blöðrunnar og þá þekkti enginn þessi lög hans. Hann átti þó gott framlag til samkundu þessarar þegar hann tók til við að þræða alla gítarana með strengjunum sínum. Eiki var svolítið duglegur við að slíta strengina nefnilega.
Sunnudagurinn fór svo í tiltekt og flatbökuát á Hróa Hetti á Selfossi.

föstudagur, júlí 18, 2003

Í dag hefst hin árlega Litla-Brúnsútilega Háskólakórsins. Því miður verð ég fjarri góðu gamni í dag en kem galvaskur annað kvöld öllum til ánægju eða miska! Bíð einmitt spenntur eftir að þessi vinnudagur klárist því þjónustustjórinn okkar ætlar að bjóða upp á rauðvín í tilefni dagsins. Síðan verður dúndur sumarstarfsmannagleði í kvell og verður þá sopið ölið.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Nokkrir hafa verið að hringja í mig varðandi Litla-Brún og er það vel. Menn eru þá að tékka á púlsinum og svona og hef ég þá sagt að um 25 manns séu að fara að láta sjá sig ef marka má heimildir frá Þengli og Siggu. Ég er því bara að vona að þessir einstaklingar séu viðbót við þá tölu sem þau gáfu mér. Þá er nú bara von um snilldarhelgi. Ég hef einnig verið að halda fram að það rigni en miðað við veðrið í dag finnst mér einhvern veginn eins og það geti ekki gerst, en við erum á Íslandi svo það er ekkert hægt að spá til um það!!!
Annað kvöld er svo starfsmannagleði sumarstarfsmanna Íslandsbankans á Lækjargötu og verður það örugglega þrusustuð, miðað við fólkið sem samanstendur að þessu.

þriðjudagur, júlí 15, 2003

Jæja, það er allt að gerast núna þessa síðustu daga fyrir Litla-Brún. Kristín og ég fjárfestum í sínum hvorum útilegustólnum um daginn í Rúmfatalagernum. Þegar við komum að kassanum sagði afgreiðslustúlkan að þessir stólar væru með svona ,,bjórdrasli" og það væri alveg stranglega bannað að vera með eitthvað annað en bjór í bjórdraslinu. Vorum ekki alveg með þetta á hreinu sko.....
Síðan var brunað með Safnkortsávísun í Esso og þar var okkur úthlutað ,,Pikknikk" -sett sem hentar alveg prýðilega held ég. Nú er bara að redda sér regnfötum þar sem það rignir alltaf í Litla-Brúnsferðum samkvæmt heimildum frá 1948 (eða hér um bil) !!!! Ætli maður geti fengið regnföt kanski hjá Þengli í Húsasmiðjunni?

mánudagur, júlí 14, 2003





I'm Ross Gellar from Friends!

Take the Friends Quiz here.

created by stomps.





SKO!!! þetta var rétt hjá mér! Ég þurfti aldrei að taka þetta próf, svo erum við líka svo líkir ;o)
Jæja, var að rekast á Friends prófið hjá Jolla og ákvað að reyna að giska fyrst á hvaða karakter ég er og hér kemur það. Ég held ég sé Ross!!! Mér finnst ég eiga svo svakalega margt sameiginlegt með þeim manni, þó alla vega eitt en jæja, það er best að taka prófið og gráta eða gleðjast.
Það er ótrúlegt en satt. Nú í dag eigum við Kristín 4 mánaða samanafmæli!!!

Þessi helgi var nú frekar róleg á minn mælikvarða. Fórum til Heru vinkonu Kristínar á föstudagskvöldið og spjölluðum um heima og geyma. Einnig var reynt á skotfimi viðstaddra í hinum geysivinsæla Duck Hunt leik þeirra Nintendo manna. Þeir sem ekki muna eftir þeim leik, þá var hann á sama diski og Super Mario Bros 1 sem fylgdi með Nintendo gömlu. Að sjálfsögðu var það erfiðleikum bundið að koma leiknum í því það þurfti að mása og blása af öllum lífs- og sálarkröfrum áður en leikurinn fór að virka. Þetta er nú bara klássískt fyrir Nintendo. Þó var það lán að tölvan fraus ekki eins og oft gerðist í denn.


Laugardagurinn var frekar rólegur en hann var notaður til að kaupa nesti og nýja skó, reyndar voru það bara nýjir skór! Sunnudagurinn var fínn líka, þar sem við fórum í grill heima á Selfossi hjá mömmu og pabba. Ömmu og afa var boðið með.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Hehe .... tók hið svokallaða Snúrupróf hjá henni Döggu (hún er semsagt ein af Snúrunum) og niðurstaða prófsins á við þó nokkur rök að styðjast verð ég að segja, hvað mig varðar!!!






Ég er Katla!
Þú ert yngst í Snúruhópnum og best í karate. Þú er svolítið "sérstök", en það er bara af því að þú ert alin upp í þriðjaheims ríkinu Svíþjóð. Þú ert langharðasti djammarinn af Snúrunum og ert með 100% mætingu í öll partý. Dyraverðir eru ekki í uppáhaldi hjá þér og þér finnst allt í lagi að banka pínu í hausinn á þeim. Þeir hafa bara gott af því.


Taktu Snúruprófið

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Um síðustu helgi var haldið í mikla svaðilför. Við Kristín fórum ásamt ellefu fjölskyldumeðlimum mínum í kraftgöngu frá Hveragerði upp að Nesjavöllum. Þetta var áætluð 12 km leið og átti hún að taka um 6 klst. Ég þorði því ekki annað en að troða bakpokann af mat og drykk áður en haldið var af stað. Við vorum nú ekki búin að ganga lengi, þegar ég steig ofan í gjótu sem full var af svona roðadrullu og varð ég því úr brók að hverfa og stóð því slippur og snauður á stuttbuxum og bol einum fata. Gurra frænka var samt svo elskuleg að lána mér buxur og sokka svo ég gæti haldið áfram. Mínar áætlanir um að vera vel búinn voru því farnar forgörðum þar sem mig skorti aukabuxur en nóg var af matnum!!!! Þessi för varð í lengra lagi þar sem vísvitandi var farið út af merktri leið til að stytta hana en allt kom fyrir ekki. Ég gat ekki betur séð en að leiðin hafi bara lengst um ca. 8 km í viðbót. Áttum að koma niður að malbikuðum vegi eftir 2 km göngu en þessi vegur sást ekki fyrr en 200 metrar voru eftir. Svo var alltaf verið að gera sér vonir um að Nesjavellir væru handan fjallsins næsta og næsta og næsta og....... en aldrei sást til hveramakkar Nesjavalla, fyrr en um 22.30 (en áætlaður komutími var 21.00!!!!!!) Eftir þessa miklu svaðilför þar sem Magga móðursystir hafði verið borin um 5 km leið á skíðastöfum var farið að Kirkjuferju í Ölfusi með bílum og þar grillað og drukkinn bjór. Þó voru göngugarpar orðnir það þreyttir að lítið varð úr áti og drykkju. Kristín og ég enduðum svo á Eyrarbakka um kl. 01.30.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Við Kristín fórum í ansi hreint frábæra útilegu um síðustu helgi. Sól á himni var okkar besti vinur lengi vel en síðar var hún farin að vera til óþurftar þar sem allir voru orðnir rauðir (á annarri hliðinni). Það gerðist vegna þess að við vorum svo lengi upp að Svartafossi sem þýddi að sólin fékk nægan tíma til að grilla göngugarpa vinstra megin. Rut og Stebbi fóru þó hvað verst út úr mr. sun og urðu mest mest rauð. Þórhildur missti fót og þurfti að skera af við öxl!!!! Reyndar var það nú bara nögl á stórutá sem fór og þurfti því að skeiða með hana (sko Þórhildi) niður á tjaldsvæði til að koma henni aðhlynningu. Við vorum ekki fyrr komin niður að ,,ég" (taka með fyrirvara) læsti lyklana í bílnum mínum. Hófst þá hin gríðarmikla innbrotslota. Auður augnpotari (ekki Kór Auður sko) reddaði okku vír og var þá hafist handa við að spenna hurðina upp til að koma tjaldhælum á milli. Atgangur mikill átti sér stað næstu 30 mínúturnar þar til Jón augnpotari braust inn að lokum og bjargaði deginum. Vildi hann ólmur halda áfram og ganga á bíla nærliggjandi tjaldeigenda en þó náðist að hemja hann. Grillað var um kveldið og síðan farið að djamma. Stúlkukindurnar sátu að spjalli yfir blössi og við drengirnir fórum í frisbí. Fljótlega tókst okkur að þróa nýjan leik sem hlaut nafnið: ,,Bjórfrisbí". Það var alveg snilldarleikur. Leikurinn gekk út á það að menn sátu í grasi og köstuðu frisbí á hver annan. Ef ekki var gripið eða kastað illa var skorið úr um það hvor hlaut refsistig og þegar fimm stiga múr var náð þurfti að hlaupa circle of shame og sækja bjór handa leikmönnum. Ég var sennilega búinn að hlaupa lengst þar sem að kastararnir voru það lélegir ;o) (ekki ég að grípa). Síðan renndi maður í hlað nokkuð hlægilegur sem tjáði okkur í hvívetna að hann væri ekki landvörður. Var hann þó nokkuð við skál. Vildi hann ólmur skemmta skemmtilegu fólki eins og okkur og dró því harmonikku fagra úr skottinu. (Athugið, hann var á bíl!!!) Þá upphófst söngur mikill og spil og þegar líða tók á nóttina var hann í sífellu að tala um að hann væri landvörður í Skaftafelli ?!?!?! Ég var nú með hressasta móti og var mér tjáð daginn eftir að ég hefði leikið á nikkuna þó nokkuð mikið líka (og ég sem kann ekkert á nikku). Kristín sá svo um tiltekt á tjaldi vegna þess að ég þurfti að liggja í leti í þó nokkuð langan tíma og fékk þar af leiðandi smá lit!