Um síðustu helgi var haldið í mikla svaðilför. Við Kristín fórum ásamt ellefu fjölskyldumeðlimum mínum í kraftgöngu frá Hveragerði upp að Nesjavöllum. Þetta var áætluð 12 km leið og átti hún að taka um 6 klst. Ég þorði því ekki annað en að troða bakpokann af mat og drykk áður en haldið var af stað. Við vorum nú ekki búin að ganga lengi, þegar ég steig ofan í gjótu sem full var af svona roðadrullu og varð ég því úr brók að hverfa og stóð því slippur og snauður á stuttbuxum og bol einum fata. Gurra frænka var samt svo elskuleg að lána mér buxur og sokka svo ég gæti haldið áfram. Mínar áætlanir um að vera vel búinn voru því farnar forgörðum þar sem mig skorti aukabuxur en nóg var af matnum!!!! Þessi för varð í lengra lagi þar sem vísvitandi var farið út af merktri leið til að stytta hana en allt kom fyrir ekki. Ég gat ekki betur séð en að leiðin hafi bara lengst um ca. 8 km í viðbót. Áttum að koma niður að malbikuðum vegi eftir 2 km göngu en þessi vegur sást ekki fyrr en 200 metrar voru eftir. Svo var alltaf verið að gera sér vonir um að Nesjavellir væru handan fjallsins næsta og næsta og næsta og....... en aldrei sást til hveramakkar Nesjavalla, fyrr en um 22.30 (en áætlaður komutími var 21.00!!!!!!) Eftir þessa miklu svaðilför þar sem Magga móðursystir hafði verið borin um 5 km leið á skíðastöfum var farið að Kirkjuferju í Ölfusi með bílum og þar grillað og drukkinn bjór. Þó voru göngugarpar orðnir það þreyttir að lítið varð úr áti og drykkju. Kristín og ég enduðum svo á Eyrarbakka um kl. 01.30.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
<< Heim