gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Ég held að ég sé ekki í náðinni hjá Ýrr þessa dagana, veit ekki hvað ég hef gert henni, en hún er búin að taka mig út af bloggaralistanum sínum og það sem slæmt er, er að ég er ekki einu sinni á "Dauðalistanum" og þá er ástandið orðið slæmt finnst mér. Þar sem það er mikilvægt fyrir okkur að vera viðurkennd sem bloggarar, er mikið kappsmál að fá að vera þó alla vega á Dauðalistanum. Ýrr er nú goðsögnin!!! Þengill var einmitt að kvarta fyrir mína hönd að þetta gengi ekki, þar sem Alzheimer Light hefur verið að hrjá hann og mundi því ekki slóðina inn á mína líka ágætu bloggsíðu!
Annars er Ritgerður að gefa eftir í baráttunni og ég mun líklega liggja í HENNI í alla nótt og hætti ekki fyrr en ég skila henni. Það er þó eina af því góða við þessa konu, að maður getur bara skilað henni þegar maður er orðinn ógeðslega leiður á henni SEM ÉG ER ORÐINN !!!!!!

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Ritgerður heitir kona ein sem leiðinleg og þreytandi getur verið. Þessari konu hef ég andstyggð á, því hún er alltaf að bögga mig. Notar sérstaka aðferð sem felst í því að hún ræðst á undirmeðvitund mína og gerir mig taugaveiklaðan þegar ég óvart fer að hugsa um hana. Þegar maður svo sinnir henni loksins verður bara ennþá meiri kjaftur á henni og maður botnar ekkert í neinu. ALDREI ÁNÆGÐ. Maður reynir allt til að forðast hana en það tekst ekki því hún er þolinmóð og það verður bara erfiðara og erfiðara að umgangast hana þegar tíminn líður. Algjör herfa þessi kerling í einu orði sagt.

En svo kemur að því að maður nær yfirhöndinni og KLÁRAR hana ALVEG!!!!!!!!!!!! MUHAHAHA

föstudagur, nóvember 22, 2002

Í dag lenti ég í mjög sérkennilegu atviki. Hef ekki lent í þessu síðan ég var 4ra til 5 ára. Fór í Nautilus í Kópavogi (Sundlaug Kópavogs) og þegar ég var að gera mig klárann til að fara í skóna mína voru þeir á bak og burt. Einhver hafði annað hvort hnuplað þeim eða tekið í misgripum mína skó í staðinn fyrir sína. Svona atvik eru gríðar óþægileg. Þarna stóð ég bara eins og bjargarlaus kettlingur úti á miðju gólfi og góndi í skóhilluna dágóða stund og var bara hissa á svipinn. Það endaði með því að ég tilkynnti þetta en það var bara ekki nóg, einhvern veginn varð ég að geta hreyft mig, var orðinn strandaglópur þarna. Hringdi í Bjarna og hann kom einhverjum hálftíma síðar með skó handa mér svo ég gæti komist af stað út í bíl. Skrítið hvað getur komið fyrir mig maður. Kannski maður ætti að auglýsa eftir þeim. Hvítir Adidas strigaskór, með hvítum reimum og þessum þremur röndum sem mynda Adidas merkið.

miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Nokkuð skemmtileg síða sem ég fór inn á áðan. Hér er hægt að græða á tá og fingri. Þannig var að ég gleymdi að skrifa blogspot þegar ég ætlaði áðan inn á síðuna mína og skrifaði því bara www.gemill.com og þá kom þetta!

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Jæja , jæja. Æskan er liðin hjá. Er ekki frá því að hafi glitt í grátt hár í morgun. Vaknaði allt í einu árinu eldri, humm. Svo fór maður að reikna og ég komst að því að ég var orðinn 23 ára!!!!! Sumir sendu mér sms í dag um að nú lægi allt niður á við héðan í frá. Ég er þá kannski kominn á þennan bezta aldur sem menn tala oft um. Nei, annars er þessi dagur búinn að vera mjög annasamur. Byrjaði hann á tíma frá 8:40 og var svo búinn kl. 16:00. Þá var stefnan tekin á Hlöðuna og reynt að læra þar en ég var einhvern veginn í engu stuði til þess. Ætlaði að fara að gera loksins eitthvað í þessari Umferðaráhætturitgerð minni en þá voru engar tölvur lausar svo lítið varð úr verki. Mér var boðið í mat hjá Valda frænda og Höllu, Sigga Braga og Gurru systur mömmu og auðvitað litla gríslingnum mínum honum Alexander sem átti einmitt 3 mánaða afmæli í dag. Hann er algjör moli kallinn. Fékk þetta fína Lasagna og kaffi á eftir. Er búinn að fá tvær afmælisgjafir í dag. Pennaveski frá Jóni Ólafi og Toblerone frá Valda og Höllu, Alexander og þeim öllum. Svo á ég von á ryksugu frá mamms og pabbs, það verður sko aldeilis munur að losna við allar bjöllurnar úr íbúðinni hehe. Já, þá er það bara vídeó eða eitthvað þessa einu klukkustund sem eftir er af afmælinu mínu. Bless í bili.

föstudagur, nóvember 15, 2002

Jæja, þá er loks kominn föstudagur, en ég er aldrei þessu vant að fara að gera ekkert (nema læra hehe je sjor) . Skellti mér á miðvikudaginn á sérdeilis skemmtilegt vísnakvöld hjá gamla kórnum mínum Kór FSu á Selfossi í minni heimasveit. Þengill, Heba, frænka hans Þengils, hún Sigga og Gosi voru með í för. Ég þekkti ósköp fáa í kórnum í þetta sinn, mesta lagi þrjá sem hafa verið að byrja þegar ég hætti en ég hætti um jólin 1999 á síðustu öld!!!! Annars var gaman að koma og skoða gamla skólann sinn og hitta skólameistara og aðra viðstadda. Það á að vera vísindaferð í kvöld en ég ætla ekki að fara í hana, heldur ætla ég að fara á svokallað FATÍMU djamm á morgun. Það er svona kórdjamm (ef einhver skildi efast). Þá verður sko fjör, alltaf gaman að syngja í glasi, Söngurinn göfgar og glæðir. Svo verður matur og skemmtiatriði. En fjörið mun byrja heima hjá henni Ýrr prinsessu. Og ef ég þekki hennar partý rétt þá verður geggt stuð.

fimmtudagur, nóvember 07, 2002

Hvað er ein smá skattahækkun á milli vina? Þetta ætti nú ekki að vera svo slæmt. Það eru meira að segja til góðir punktar við eina slíka!!! Hvað er það sem þorrinn kvartar undan sí og æ? Það er VERÐBÓLGAN, allir æfir yfir því að vöruverð sé of hátt. En þegar ríkisstjórnin hækkar skattana, þá slær hún á þensluna í leiðinni. Verðbólgan MINNKAR!!! Mig langar aðeins að taka smá extrím dæmi. Segjum sem svo að Skattman (Geir H. Haarde) myndi hækka með einu pennastriki skatta í 90 % !!!! Sem þýðir einfaldlega það að sá sem hefur 100.000 kall í brúttótekjur á mánuði fær ekki nema 10.000 kall í sinn mölétna vasa. Þetta myndi eflaust kalla á mikla aðsókn í leyniskyttunámskeið o. fl í þeim dúr en lítum um stundarsakir fram hjá því og sömuleiðis lífeyrissjóðum, tollum og svoleiðis. Fólk myndi neyðast til að draga gríðarlega úr neyzlu sinni. Hvað yrðu þá kaupmenn að gera, þegar birgðirnar hrannast upp hjá þeim, þeir neyðast til að lækka verðið. Þetta myndi minnka verðbólguna og allir yrðu glaðir. En eitt er staðreynd, þetta myndi stefna þjóðfélaginu í KREPPU dauðans. Mikið atvinnuleysi færi að gera vart við sig og fyrirtæki stefndu hratt í gjaldþrot og þá fyrst yrðu allir snælduvitlausir. Þannig að þetta færi í hring. Svo eru allir æfir núna út af 9% hækkun tekjuskatta.
Bara smá pæling! gemill