gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, október 28, 2008

Lánið komið í hús og hæsta stýrivaxtastig frá upphafi verðbólgumarkmiðs...

Já, lánið komið í hús. og loks komið að því að stýrivextir hafa verið hækkaðir í 18%. Enda finnst mér að nú megi fara að gæta meira aðhalds en gert hefur verið, á þeim hrikalega erfiðum tímum verðbólgu og hríðlækkandi gengis sem nú er.

Ekkert annað var í stöðunni núna. Ekki er unnt að lækka vextina, það er ljóst, (ég skildi nú aldrei alveg þessa miklu lækkun um daginn, hún var að minnsta kosti alltof mikil). Ekki má gleyma því að þó að stýrivextir á Íslandi séu með því hæsta sem þekkist í heiminum, þá eru raunstýrivextir ekki nema 2,1 %. Það eru alþjóðlega mjög lágir raunstýrivextir og ekki miklar líkur á að þeir dugi til að ná verðbólgunni niður og genginu upp. Þann 6. nóvember nk. geri ég því ráð fyrir feitri hækkun til viðbótar. Það væri að minnsta kosti ekki ósennilegt.

Eitt verður að passa. Raunstýrivextir mega alls ekki vera neikvæðir, því þá er hætt við því að innistæður landsmanna rýrni og ekki skapar það mikið traust á gjaldmiðilinn og peningastefnuna.

Eins og ég hef margoft sagt. Þá er aðhaldssöm peningastefna það sem mun koma okkur íslendingum út úr feni verðbólgu og gengishruns. Aðhaldssemin mun að lokum kitla einhverja áhættufjárfesta í að fjárfesta heima á fróni. Höldum bara ró okkar. Eyðum ekki um efni fram, enda eigum við ekki fyrir því. Minnkum bara við okkur, við þurfum ekki ALLT. Þetta mun taka smá tíma, eitt, til eitt og hálft ár, en peningastefnu Seðlabankans sem beitt er skynsamlega (með vitorði hagfræðinga IMF) mun takast ætlunarverk sitt.

sunnudagur, október 26, 2008

Ritgerðin...

Jæja, þá fer þetta nú að síga á seinni hlutann. Það er að vísu langt síðan ég skrifaði einhverjar fréttir af sjálfum mér, þar sem ég hef verið alltof duglegur að bölsótast yfir hvernig ástandið í krónumálum er og á að vera í mínum huga, en nú ætla ég að vera með fréttir.

Ég man ekki hvort ég hafi verið yfirleitt búinn að geta þess hérna á síðunni að ég er að skrifa mastersritgerð og hef verið að því meira og minna allt þetta ár. Henni á ég að skila 15. nóvember nk. og eru því ekki nema um 21 dagur til stefnu. Ritgerðin er hins vegar komin í fínan farveg, allt virðist stefna í að ég klári textaskrifin fyrir lok októbermánaðar og komi því öllu til prófarkarlesara. Þá verður unnið að inngangi og niðurstöðum á meðan.

En ég er farinn að hlakka rosalega til að klára þetta. Ætla mér að gera mér einhvern dagamun þann 15. nóv., enda laugardagur þá. Svo er vörn vonandi í desember og þá ætti ég að ná að útskrifast fyrir jól, það væri alveg snilld.

sunnudagur, október 05, 2008

Lífeyrissjóðirnir og áhætta borgaranna...

Nu virðist sem lífeyrissjóðirnir ætli sér að ráðast í þá áhættusömu fjárfestingu að leysa lausafjárvanda bankanna og hugsanlega veita þeim stórt lán. Erlendar eignir sjóðanna hafa fallið mikið í verði undanfarið en að sama skapi hefur gengisfall krónunnar líklega unnið eitthvað af þessu verðfalli upp. Þeir eru að minnsta kosti búnir að vera að selja eignir á milljón undanfarin misseri og kaupa nú krónur eins og þeir eiga lífið að leysa (um 200 milljarðar króna). Sjóðirnir eru það stórir að þeir gætu kannski bjargað krónunni fyrir horn, það er reyndar eitthvað sem tíminn leiðir í ljós.

Komandi vika er svolítið óljós, en ríkisstjórnin hefur ásamt Seðlabankanum og aðilum vinnumarkaðarins setið á fundum fram eftir degi til að koma með einhverjar úrlausnir. Þar hafa t.a.m. verið nefndar framlengingar á kjarasamningum. Á sama tíma er allt óljóst hvað verður um hina bankana tvo, Landsbankann og Kaupthing. Eru samrunar í pípunum eða hvað? Heyrði því einnig fleygt að Kauphöll Íslands verði lokað á morgun mánudag og gæti það bent til einhverra svaka tíðinda.

Engu að síður heyrast nú raddir um að Landsbankinn lifi ekki vikuna af!!! Kannski boltinn liggi þá hjá lífeyrissjóðunum? Á þann hátt er almenningur settur í stöðu mjög áhættusams fjárfestis. Hvað ætli verði sett að veði nú? Bílalán?!?

fimmtudagur, október 02, 2008

Gengið hrynur en peningastefnan getur komið til bjargar...

Já, það er ill staðreynd að gjaldmiðillinn okkar er að eyðast upp í vasanum á okkur. En Seðlabankinn er búinn að gefa út flokk innistæðubréfa sem verður að viðskiptum á morgun. Bréfin eru með 15,25% vöxtum. Þetta eru góðar fréttir, en ætli það þurfi ekki meira til.

Gengið þarf að vera sterkara og til þess að svo megi verða þarf að gera gjaldmiðilinn eftirsóknarverðan í augum erlendra fjárfesta svo auka megi gjaldeyrisforðann. Ef það á að hækka vexti einhvern tímann, þá er það líklega núna. Næsta ákvörðun er 6. nóvember en það gæti verið alltof langt þangað til. Því gæti reynst mikilvægt að grípa til óvæntrar hækkunar eins og gert var nú fyrst í vor. Þannig að til að styrkja gengið og laga þar með stöðu þeirra fjölmörgu sem nú eru háðir gengisbundnum lánum sem nú hækka dag frá degi um hrikalegar upphæðir, þarf að grípa til hinnar óvinsælu leiðar að hækka stýrivextina. Vont en það venst betur en gengishrunið.

Verðtryggingin fer þá vonandi að bíta minna á þá sem háðir eru hinum hefðbundnu 4,15% lánum og þá vonandi líka gengistryggingin!!! Mátturinn er í peningastefnunni.

miðvikudagur, október 01, 2008

KRASS...

Þetta er orðið fyrir Ísland í dag í öldurófi alheimsbúskaparins. Ég fer á morgun og kaupi mér mökk af dönskum krónum og geymi inni á reikningi hjá hinum þjónustuólundaða Danske Bank sem reyndar er í klípu líka. Féð sem ég á í innlánum hjá Glitni er nú samt sem betur fer ríkistryggt. Í sjóðum á ég hins vegar ekki lengur hjá Glitni.

Ríkið kaupir 75% í Glitni á mánudag, gengi hlutabréfa í Glitni fellur um 71% í gær og á sama tíma verður FL GROUP gjaldþrota sem leiðir til þess að skuldabréfasjóður 9 fellur umtalsvert í ávöxtun. Það síðasta sem ég heyrði var að stjórn Glitnis hefur gefið út afkomuviðvörun, sem gæti bent til þess að eigið fé sé bankans sé að klárast.

Mér sýnist jafnvel vera í kortunum hjá ríkinu að kaupa hin 25 prósentin í Glitni til að liðka aðeins til á fjármálamarkaði og jafnvel að Seðlabankinn grípi til vaxtahækkunar sem kemur að óvörum fyrst að eldsneytisverð hækkar þrátt fyrir mikið verðfall í vikunni. Kannski það hafi nú verið planið, ég veit ekki.