gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Verðbólgan er 14,5% nú í ágúst...

Og merkilegt nokk og eiginlega bara stórtíðindi að nú hefur verðbólgan MEÐ húsnæðisliðnum farið í lægra gildi en verðbólga án húsnæðisliðar. Lengi var einmitt deilt um þá kjarabót sem hlytist af að taka húsnæðið út úr vísitölunni, annað hljóð virðist í skrokknum nú.

Skondnast finnst mér samt að lesa öll commentabloggin um fréttir mbl.is sem iðulega spretta upp eins og gorkúlur þegar fjallað er um verðbólguna. Allflestir eru pennarnir á því að þeir sem fara með stjórnvölin séu þvílíkir þöngulhausar að standa bara hjá og horfa bara aðgerðalausir á þetta allt fara til fjandans. Gott og vel, þar er beinlínis verið að öskra á aðgerðir gegn verðbólgunni annars fari allt til fjandans.

Heyrðu, svo kemur að vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans mitt í öllu saman þar sem stýrivextir eru hækkaðir. Þá svoleiðis sturlast allir!!! Bloggarar mbl.is fara hamförum yfir slíkri skemmdarstarfsemi sem kennd er við "hávaxtastefnu". "Hvernig vogar bankinn sér að hækka vextina um 0,25-0,5 prósentur?" varpa menn upp.

Það er ljóst að aðgerða er þörf og sannleikurinn er sá að til þeirra er gripið. Samt er þjóðarsálin ekki með meiri skilning á sínum hag en þetta. Er nema von að trúverðugleiki Seðlabankans er ekki meiri en hann er nú!!!

föstudagur, ágúst 22, 2008

Í Kína spila nokkrir strákar frá lítilli þjóð handbolta eins og englar...

Það er greinilegt að það sem gerist í Kína hefur ýmislegt að segja um markaði heimsins, t.a.m. má sjá íslensku úrvalsvísitöluna í skrítinni stöðu laust eftir hádegið.















Til hamingju Ísland. Nú er ekkert sem stöðvar strákana!!! GULLIÐ JÁ TAKK!!!

föstudagur, ágúst 15, 2008

LOTTÓ...

Jæja, mér skilst að nú verði fyrsti vinningur í LOTTÓinu sjöfaldur á morgun. Heyrst hefur að hann nálgist 65 milljónir króna. Drjúg upphæð það. Hægt er að láta sig dreyma um að eiga þessa upphæð, borga upp húsið sitt, kaupa draumabílinn, fara í ærlegt ferðalag o.s.frv. en er þetta svo fjarlægur draumur? Kannski ekki. Lítum aðeins á þetta mál.

Gefum okkur að gamni að fyrsti vinningur fari upp í kannski 70 milljónir króna (þó að líklegt sé að þau hjá Íslenskri Getspá stoppi nú í 65 millljónum króna). En engu að síður, höldum okkur við 70 milljóna dæmið. Mér reiknast til að hægt sé að mynda 658.008 fimm talna raðir úr þessum 40 tölum sem kastast um í LOTTÓ vélinni í formi kúlna. Þetta þýðir að til að við séum alveg 100% örugg um að vinna fyrsta vinning, þá þyrftum við að reiða fram 658.008 x 100 = 65.800.800 krónur (s.s. rúmar 65 milljónir króna). Ef fyrsti vinningur verður svo 70 milljónir króna þá högnumst við um 70 - 65,8 = 4,2 milljónir króna á þessu.

Útfrá þessu sést að þau hjá Íslenskri Getspá munu aldrei fara með fyrsta vinning hærra en í 65,8 milljónir króna því þá gengur vinningurinn pottþétt út og tap verður af LOTTÓinu. Reyndar er ekki víst að neinn vilji taka slíka áhættu að kaupa upp allar raðirnar því það eru alltaf a.m.k. 1/658.008 líkur á að einhver annar vinni fyrsta vinning á móti og leiði því til hrikalegs taps þess sem keypti allar raðirnar.

En engu að síður, þá er nú loks að verða hagkvæmt að kaupa sér miða í LOTTÓi þó það sé nú ekki nema ein röð. Vænt vinningsupphæð er nú m.v. 65 milljóna króna fyrsta vinning: -1,22 krónur á röð.
Að mótmæla...

Stjórnarformaður UNIFEM á Íslandi, hún Regína, benti mér á nýtt átak samtakanna: "Say NO to Violence against Women“ fyrir skemmstu og sagði að á netinu stæði nú yfir undirskriftarsöfnun þessu málefni til stuðnings. Þar er fólk s.s. hvatt til að mótmæla ofbeldi gagnvart konum. Ég var ekki lengi að koma mínu nafni á þennan lista, þar sem ég mótmæli ofbeldi gegn konum og eiginlega bara öllu ofbeldi, sama hver á í hlut.

Engu að síður var Regína nokkuð svekkt með eina hlið af kynningu málefnisins. Þannig var að dagurinn í gær hafði verið ákveðinn í (að ég held) júní eða jafnvel fyrr sem upphafsdagur átaksins. Úr því varð einmitt og var Regína á fullu að vinna að kynningu þess í gærdag.

Það sem hins vegar leiddi til þessa svekkelsis hennar vegna kynningarinnar var að næstum enginn fulltrúi fjölmiðla mætti á fundinn og var sú ályktun dregin í kjölfarið að flestir blaða- og sjónvarpsmenn væru staddir í Ráðhúsi Reykjavíkur að fylgjast með fjögurra hauskúpu leikriti þar á bæ.

Svona hitti þetta á því miður. Ég vil því að lokum enda þessa bloggfærslu á að mótmæla einnig ofbeldi á borgarbúum. Ég kalla í raun það sem fer fram þarna í borginni ekkert annað en hreint og klárt ofbeldi líka. En þessu vilja fjölmiðlar koma til skila frekar en hinu málefninu sem er nú öllu mikilvægara að mínu mati.

föstudagur, ágúst 08, 2008

Að vanda mál sitt með góðyrðum...

Ég er nú einn af þeim sem hef brugðið fyrir mig blótsyrðum eins og: "andskotans, helvítis" og svoleiðis orðum og tel ég mig ekki vera eyland í þeim efnum. Þó ég sé ekki alveg fullkominn þá vil ég reyna að bæta málfarið sem um getur og í dag ætla ég því að koma með þrjár tillögur að orðum (sem nefna mætti "góðyrði") sem leggja má sér til munns í stað blótsyrðanna.

Til að byrja með er kannski það veikasta í flokknum "blótsyrði":
"Ansans!!!". Þetta er kannski ekki svo slæmt orð að segja þegar maður stígur á nagla en þess vegna held ég að fólk noti það mun minna en önnur sterkari. En skv. einum félaga mínum er ný tillaga að segja í staðinn: "Ananas!!!". Þarna er komið mun fallegra og heilsusamlegra orð.

Færum okkur svo upp í miðstigið í flokknum "blótsyrði":
"Helvítis!!!". Þarna er komið frekar sterkt orð og á helst við þegar maður missir mat niður á skyrtuna sína eða í slíkum tilvikum. Að mínu mati er nú ekki svo auðvelt að koma í veg fyrir að missa mat á skyrtuna en málfarið má bæta, því legg ég til orðið: "Heilhveitis!!!". Þarna erum við komin í kornmetið sem er að sama skapi ekki bara hollt fyrir líkama og sál heldur líka tunguna.

Þá er það sterkasta orðið í flokknum "blótsyrði":
"Djöfulsans!!!". Þetta er ansi hreint svakalegt orð sem ég hef því miður notað alltof oft um dagana, einkum þegar ég ríf buxurnar mínar og set hendina mína inn í viftu eða eitthvað slíkt. Úr þessu má bæta því hægt væri í staðinn að segja: "Jökuldals!!!". Til dæmis í frösum eins og: "Hvar í jökuldalnum ertu maður?", "Jökuldals vitleysa er þetta" og þannig mætti lengi telja.

Góðyrðaflokkinn má að sjálfsögðu þróa mun betur og væru tillögur lesenda vel þegnar. Að minnsta kosti ætla ég að reyna að beita góðyrðum í stað blótsyrða í framtíðinni.

föstudagur, ágúst 01, 2008

Sophisticated símaöt með einnar rásar hljóðblöndun...

Ég hef samið dálítið af lögum í gegnum tíðina með misgóðum árangri að sjálfsögðu. Sumum lögum hef ég gleymt en hér áður lagði ég mikið kapp á að skrifa þau niður á hinu alþjóðlega nótnakerfi, en þetta var ég natinn við þegar ég stundaði tónfræðina af miklu kappi. Þessi lög á ég hugsanlega einhvers staðar inni í gömlu Machintosh Classic tölvunni minni heima á Selfossi og því hafa þau í mörg ár verið hulin eyrum fólks og sjónum. Síðar fór ég að nota gömlu aðferðina, segulbandsupptökutæknina góðu og því hefur hellingur af þessum lögum varðveist hljóðritaður.

Á segulbandsupptökuárum mínum (10-12 ára) gerði ég talsvert margar tilraunir með hljóð og ekki fækkaði nú möguleikunum þegar ég fékk tvöfalt segulbandstæki að gjöf sem var með spilara vinstra megin og upptöku hægra megin. Þá komst ég á annað stig í upptökutækninni; einnar rásar hljóðblöndun!!! Þetta gerði mér kleift að spila grunn lagsins inn á píanóinu fyrst, næst bassann (með gítar reyndar), þar næst tók ég synthesizerinn og lék inn smá laglínu eða sóló eða eitthvað sem ég hafði undirbúið og þar næst einhverja hljóma á gítarinn. Þegar þetta var búið, þá söng ég ofan á öll þessi hljóðfæri ef ég þ.e.a.s. hafði textann undirbúinn. Allt þetta tók ég s.s. upp á eina rás en til gamans má geta að Bítlarnir höfðu, sökum íhaldssemi EMI fyrirtækisins, aðeins yfir fjögurra rása upptökutækni að ráða og gerðu samt ótrúlega hluti með hjálp Martins. Ekki er óalgengt að notast sé við 16 eða jafnvel 32 rása tækni í dag. Þetta sannar að hrárri upptökur eru ekkert verri en þær fullkomnari að mörgu leiti.

Út af því að ég blogga um þetta þá dettur mér ein svolítið skondin prakkarasaga í hug. Við vinur minn vorum einu sinni búnir að semja píanódúett í a-moll í sameiningu og vildum helst fá spilun á honum í útvarpi þar sem við vorum svo ánægðir með hann. Lékum hann reyndar á einhverjum nemendatónleikum í Tónlistarskóla Árnesinga að ég held tvisvar en okkur þótti hann greinilega ekki ná það vel til eyrna fólks með þeim hættinum. Þess vegna brugðum við á það snjalla ráð að fremja "sophisticated" símaöt!!! Þessi símaöt fólust í því að við tókum okkur símaskrá í hönd, opnuðum hana einhvers staðar, lokuðum augunum og settum puttann einhvers staðar á þeirri síðu sem símaskráin opnaðist. Þá var hringt í viðkomandi símanúmer sem puttinn rambaði á og þegar sá sem hinum megin á línunni svaraði, ýttum við á Play á segulbandstækinu (þar sem við höfðum undirbúið eina af þessum einnar rásar segulbandsupptökum af dúettnum) og lagið því leikið fyrir viðmælandann. Vona að símreikningurinn hafi ekki farið upp úr öllu valdi hjá mömmu og pabba, þar sem við vorum oft að hringja í 91 númer og það var nú löngum talið dýrt fyrir landsbyggðarfólk. Oft hef ég pælt í undrun viðmælanda þegar þeir heyrðu ekkert annað en einhvern skrítinn píanódúett í símanum.

Í dag er aðalyrkisefni okkar Kristínar, Emilía Ólöf og höfum við verið dugleg við að syngja hana í svefn með þeim lögum.