gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

föstudagur, ágúst 01, 2008

Sophisticated símaöt með einnar rásar hljóðblöndun...

Ég hef samið dálítið af lögum í gegnum tíðina með misgóðum árangri að sjálfsögðu. Sumum lögum hef ég gleymt en hér áður lagði ég mikið kapp á að skrifa þau niður á hinu alþjóðlega nótnakerfi, en þetta var ég natinn við þegar ég stundaði tónfræðina af miklu kappi. Þessi lög á ég hugsanlega einhvers staðar inni í gömlu Machintosh Classic tölvunni minni heima á Selfossi og því hafa þau í mörg ár verið hulin eyrum fólks og sjónum. Síðar fór ég að nota gömlu aðferðina, segulbandsupptökutæknina góðu og því hefur hellingur af þessum lögum varðveist hljóðritaður.

Á segulbandsupptökuárum mínum (10-12 ára) gerði ég talsvert margar tilraunir með hljóð og ekki fækkaði nú möguleikunum þegar ég fékk tvöfalt segulbandstæki að gjöf sem var með spilara vinstra megin og upptöku hægra megin. Þá komst ég á annað stig í upptökutækninni; einnar rásar hljóðblöndun!!! Þetta gerði mér kleift að spila grunn lagsins inn á píanóinu fyrst, næst bassann (með gítar reyndar), þar næst tók ég synthesizerinn og lék inn smá laglínu eða sóló eða eitthvað sem ég hafði undirbúið og þar næst einhverja hljóma á gítarinn. Þegar þetta var búið, þá söng ég ofan á öll þessi hljóðfæri ef ég þ.e.a.s. hafði textann undirbúinn. Allt þetta tók ég s.s. upp á eina rás en til gamans má geta að Bítlarnir höfðu, sökum íhaldssemi EMI fyrirtækisins, aðeins yfir fjögurra rása upptökutækni að ráða og gerðu samt ótrúlega hluti með hjálp Martins. Ekki er óalgengt að notast sé við 16 eða jafnvel 32 rása tækni í dag. Þetta sannar að hrárri upptökur eru ekkert verri en þær fullkomnari að mörgu leiti.

Út af því að ég blogga um þetta þá dettur mér ein svolítið skondin prakkarasaga í hug. Við vinur minn vorum einu sinni búnir að semja píanódúett í a-moll í sameiningu og vildum helst fá spilun á honum í útvarpi þar sem við vorum svo ánægðir með hann. Lékum hann reyndar á einhverjum nemendatónleikum í Tónlistarskóla Árnesinga að ég held tvisvar en okkur þótti hann greinilega ekki ná það vel til eyrna fólks með þeim hættinum. Þess vegna brugðum við á það snjalla ráð að fremja "sophisticated" símaöt!!! Þessi símaöt fólust í því að við tókum okkur símaskrá í hönd, opnuðum hana einhvers staðar, lokuðum augunum og settum puttann einhvers staðar á þeirri síðu sem símaskráin opnaðist. Þá var hringt í viðkomandi símanúmer sem puttinn rambaði á og þegar sá sem hinum megin á línunni svaraði, ýttum við á Play á segulbandstækinu (þar sem við höfðum undirbúið eina af þessum einnar rásar segulbandsupptökum af dúettnum) og lagið því leikið fyrir viðmælandann. Vona að símreikningurinn hafi ekki farið upp úr öllu valdi hjá mömmu og pabba, þar sem við vorum oft að hringja í 91 númer og það var nú löngum talið dýrt fyrir landsbyggðarfólk. Oft hef ég pælt í undrun viðmælanda þegar þeir heyrðu ekkert annað en einhvern skrítinn píanódúett í símanum.

Í dag er aðalyrkisefni okkar Kristínar, Emilía Ólöf og höfum við verið dugleg við að syngja hana í svefn með þeim lögum.

3 Ummæli:

  • Þann 4:50 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

    Þú þarft endilega að gefa þetta út!! Eða allvegann koma spila bestu löginn inn á einna rása upptökutækið og gefa vinum og vandamönnum!! Bananlagið myndi án efa slá í gegn!

    ps. Sigga og Eiki gætu komið sem gesta söngvarar og sungið Páskarnir eru í nánd ;)

     
  • Þann 2:21 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

    já hvernig væri að setja þessar upptökur inn á síðuna....

     
  • Þann 4:16 e.h. , Blogger gemill sagði...

    hehe

     

Skrifa ummæli

<< Heim