gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

föstudagur, ágúst 08, 2008

Að vanda mál sitt með góðyrðum...

Ég er nú einn af þeim sem hef brugðið fyrir mig blótsyrðum eins og: "andskotans, helvítis" og svoleiðis orðum og tel ég mig ekki vera eyland í þeim efnum. Þó ég sé ekki alveg fullkominn þá vil ég reyna að bæta málfarið sem um getur og í dag ætla ég því að koma með þrjár tillögur að orðum (sem nefna mætti "góðyrði") sem leggja má sér til munns í stað blótsyrðanna.

Til að byrja með er kannski það veikasta í flokknum "blótsyrði":
"Ansans!!!". Þetta er kannski ekki svo slæmt orð að segja þegar maður stígur á nagla en þess vegna held ég að fólk noti það mun minna en önnur sterkari. En skv. einum félaga mínum er ný tillaga að segja í staðinn: "Ananas!!!". Þarna er komið mun fallegra og heilsusamlegra orð.

Færum okkur svo upp í miðstigið í flokknum "blótsyrði":
"Helvítis!!!". Þarna er komið frekar sterkt orð og á helst við þegar maður missir mat niður á skyrtuna sína eða í slíkum tilvikum. Að mínu mati er nú ekki svo auðvelt að koma í veg fyrir að missa mat á skyrtuna en málfarið má bæta, því legg ég til orðið: "Heilhveitis!!!". Þarna erum við komin í kornmetið sem er að sama skapi ekki bara hollt fyrir líkama og sál heldur líka tunguna.

Þá er það sterkasta orðið í flokknum "blótsyrði":
"Djöfulsans!!!". Þetta er ansi hreint svakalegt orð sem ég hef því miður notað alltof oft um dagana, einkum þegar ég ríf buxurnar mínar og set hendina mína inn í viftu eða eitthvað slíkt. Úr þessu má bæta því hægt væri í staðinn að segja: "Jökuldals!!!". Til dæmis í frösum eins og: "Hvar í jökuldalnum ertu maður?", "Jökuldals vitleysa er þetta" og þannig mætti lengi telja.

Góðyrðaflokkinn má að sjálfsögðu þróa mun betur og væru tillögur lesenda vel þegnar. Að minnsta kosti ætla ég að reyna að beita góðyrðum í stað blótsyrða í framtíðinni.

1 Ummæli:

  • Þann 11:20 f.h. , Blogger Bidda sagði...

    Hahahahaha, ömmu minni fannst alveg voðalegt að blóta og þess vegna notaði hún voða mikið ansvillans sem hefur átt að vera vægari útgáfa af andskotans. En hún hefði náttúrlega alveg getað sagt ANANAS:P

     

Skrifa ummæli

<< Heim