gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Það var alveg þvílíkt gaman í útskriftarveislunni í Gauksrimanum. Útskriftin var löng og ströng en tók þó ekki meira en rétt rúma 2 tíma. Minn er voða kátur þessa dagana að sjálfsögðu.

Veislan stóð yfir frá 19 - 03.30 og var sungið endalaust mikið og dansað meira að segja með þeim afleiðingum að afi braut lampa. hehe

föstudagur, júní 18, 2004

Á P-máli heiti ég Gupuðjópón sem er ekki svo ólíkt Al Capone. He he he bara smá pæling.

Fór í magnþrungna jeppaferð um Landmannaleið og hluta af Dómadalsleið (Dónatal í Dómadal) og Fjallabaksleið. Við Kristín slógumst þar í för með Bigga, Ýrr og Þengli. Ekið var um torfærur og ár. Lagt var af stað upp úr hádegi og komið heim um hálf eitt eftir miðnætti. Samsagt heilmikil för. Komum við á Kristjáni X á Hellu og fengum okkur Pizzu og öl. Pizzan var alveg fyrirtak. Ölið svalar þreyttum ferðalöngum einnig.

Á morgun er svo útskriftin og er mikil eftirvænting hjá mér eftir henni.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Það er ekkert smá mikið sem gengur á á EM. Við Gauti og Siggi Ágúst horfðum á England - Frakkland á sunnudag og fannst leikurinn ótrúlegur. Hver hefði trúað því að einn maður gæti unnið heila stórþjóð í Knattspyrnu. Það gerðist þó í þessum leik þegar Zidane tók bara til sinna ráða.

Í gær var síðan frábær leikur Svía og Búlgara þar sem Svíarnir kafsigldu Búlgarina. Henrik Larson er bara skrambi góður ennþá, þrátt fyrir aldurinn. Átti þátt í öllum mörkunum fimm og skoraði m.a. tvö þeirra. Hann er því kominn á listann yfir markahæstu menn mótsins. En nú eru tveir sem hafa skorað tvö mörk. Zidane og Larson.
Í gær fékk ég formlegt bréf frá Prófessor Páli Skúlasyni þar sem hann tjáði mér að honum yrði mikil virðing og ánægja sýnd ef ég myndi mæta til útskriftarathafnar Háskóla Íslands næstkomandi laugardag. Ég er að hugsa um að verða við þeirri beiðni.

föstudagur, júní 11, 2004

Við Kristín erum orðnir algjörir DVD fíklar! Það er alveg magnað hvað það er hægt að verða "húkkt" á þessu. Nú er ekkert horft á VHS lengur og stefni ég eiginlega á að henda gamla videotækinu. Fórum á miðvikudagskvöldið og keyptum okkur þrjá DVD diska í safnið. Það voru hinar miklu eðalmyndir: Charlie's Angels 1 & 2 og Spiderman. Það er bara allt önnur Ella að horfa á þetta í þessu fyrirbæri; DVD spilaranum. Tala náttla ekki um að hafa surround kerfi líka :o)

Í gær var mjög sólríkur dagur og því fór ég ásamt nokkrum kórfélögum á Austurvöll. Þar var teigaður bjór og notið sólarinnar í jakkafötum. Ég verð nú að viðurkenna að mér var þokkalega heitt í þessum svörtu fötum.
Á morgun hefst svo EM, einmitt það sem ég hef verið að bíða eftir í dágóðan tíma. Ég ætla að leyfa mér að spá í spilin hér. Ég segi að fyrstu fjögur sætin verði svona:

1. Frakkland

2. Ítalía eða Niðurlönd

3. Ítalía eða Niðurlönd

4. Portúgal

Athugum hvort ég verði sannspár. Get ekki gert upp hug minn varðandi Holland og Ítalíu. Ég hugsa reyndar að England hafi toppað of snemma (þ.e. á móti Íslendingum). :o)

miðvikudagur, júní 09, 2004

Langt er síðan síðast!

En það getur verið hálfleiðinlegt að blogga þegar commentakerfið er bilað hjá manni. Ég þarf að fara að fá hana Ýrr til að laga þetta eða jafnvel hana Ellen sem er að fara að útskrifast úr tölvunarfræði á laugardaginn kemur. (Hún er nefnilega ný hér í bankanum).

Ég er sem sagt farinn að vinna aftur, en ýmislegt hefur gengið á síðustu vikur. Ég kláraði lokaritgerðina mína, fór í "heimsreisu" til Englands, Ítalíu og Slóveníu með kórnum og hvaðeina. Nú er ég búinn að fá úr ritgerðinni minni og það er því næsta víst að ég mun útskrifast þann 19. júní sem ku vera Kvennadagurinn. Þá tekur kvenfólk upp á því að sprikla um götur bæja og borga og sennilega sitthvað fleira sem ég kem ekki frekar inn á. Hvað veit maður? Þá verður sko fjör. Síðan verður ábyggilega eitthvað glens fljótlega eftir það.

Sumarið er því tíminn til að blogga slatta.