gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, desember 30, 2003

Jólin eru rosalega mikill drómatími yfirleitt en ekki get ég sagt að þessi jól hafi verið þau rólegustu sem ég hef upplifað. Ég hef lítið annað aðhafst en að borða hangikjöt, kökur og sælgæti. Jólin fóru og mikið fram undir stýri þar sem við Kristín vorum eins og jójó á milli Reykjavíkur, Eyrarbakka og Selfoss. Jólaboð þvers á kruss og eitt partý hjá bekknum hennar Kristínar á laugardagskvöldið. Það er nú reyndar alltaf gaman að hitta fólkið sitt svona einu sinni á ári en það leiðinlegasta við þetta er að keyra í þessari geðveiku hálku sem er búin að vera í Þrengslunum. Búið að vera alveg autt fyrir hátíðar en rétt á meðan hátíðin stendur yfir þarf endilega að vera hálka dauðans.

Eitt er það sem tilheyrir á jólum hjá mér líka og eru það bílavandamál. Bíllinn fór ekki í gang hjá mér í gærmorgun og því þurfti að reyna að gefa honum start og var það meira en að segja það þar sem einhver annar bíll var búinn að loka mig inni. Því þurfti ég að fá bílinn hjá Magnúsi bróður lánaðan til þess einfaldlega að keyra á bílinn minn svo hægt væri að koma honum út úr sjálfheldunni. Ekki var allt búið enn. Ég prófaði að aka honum um Selfossbæ í gærkvöld til að fá einhverja smá hleðslu á geyminn en þá var svo mikill vatnsvaðall á Fossheiðinni að það flæddi inn á vélina. Þá lá best við að banka upp á hjá Þengli í Grashaganum þar sem ég var ekki með síma (týpískt hvað maður þarf alltaf að skilja símann sinn eftir þegar maður lendir í svona). Þengill var ekki heima en Pabbi hans og mamma björguðu mér með síma og hringdi ég því í pabba til að láta draga mig í burtu. Ekki leið á löngu þar til annar bíll sat líka í súpunni vegna flæðis inn á vél. Allt fór þó vel að lokum.

föstudagur, desember 19, 2003

Þá er víst komið að því. Ég er staddur hér í ODDA á föstudagskvöldi með kaffið og er að reyna að troða síðasta lestrarskammtinum í höfuð mér, því málið er að þreyta sitt síðasta próf á morgun í Eyrbergi kennsluaðstöðu hjúkrunarfræðinema. Hér er magnþrungið andrúmsloft og má heyra saumnál detta. Sennilega er hægt að telja eftirlegukindur á fingrum annarrar handar. Hér er þögn yfir mannskapnum. Andi þekkingar svífur yfir og má finna nærveru hans um vit sér. Það er ákveðin áfangi í húfi því þetta ku víst samkvæmt síðustu talningu vera mitt allra síðasta próf úr skóla hæðarinnar á Íslandi. Hér á eftir mun ég því freista þess að þekkja kvótakerfið út og inn þar sem á morgun eru einmitt 20 ár frá því Kvótakerfi í sjávarútvegi var sett á. Þessa dags verður því minnst sem dagsins sem miðin fóru að nýtast betur en þekkst hafði áður. Við skulum sjá hvernig gengur!

miðvikudagur, desember 10, 2003

Það er lítið sem hendir námsmann eins og mig í prófum yfirleitt en nú var undantekning á, þar sem ég er búinn að vera fyrir framan kameru alla síðustu helgi. Það má segja að allur laugardagurinn hafi farið í þetta. Málið var að ákveðnir aðilar voru að skjóta auglýsingu alveg frá því á fimmtudaginn held ég og eitthvað fram eftir þessari viku og var kórinn einmitt fenginn til að leika í einni senunni ( eða reyndar mjög mörgum tökum). Síðan var ég boðaður í töku um kvöldið til að leika áfram í þessari auglýsingu og einnig á sunnudagsmorguninn úff. Hversu oft þarf maður að liggja í drullunni á Ingólfstorgi á ævinni? Mesta lagi einu sinni ef maður slysast til að detta á torgið, en ég held ég hafi verið að velta mér þarna í forinni í alls 10 til 15 mínútur alla síðustu helgi. Nú spyrja margir náttúrulega.... "Hvurn djöfulann varstu að gera maður?" og reyndar fékk ég einmitt eitt sms frá Bigga þessa efnis, en hann var þarna í grenndinni og rak upp stór augu þegar hann sá þessi ósköp. Þá svara ég: "Hvað gerir maður ekki fyrir frægðina?"

þriðjudagur, desember 02, 2003

Fyndið að skipta um sprungið dekk á Volkswagen Golf á Kringluplaninu og rekast svo bara á hjólbörudekk í skottinu. Gæfulegt!