gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

laugardagur, nóvember 29, 2008

Kominn á danskan vinnumarkað...

Eftir að ritgerðarskrifum lauk, tók við dálítið dauður tími. Mér fannst eins og eitthvað vantaði. Ég fór reyndar að vera með Emilíu meira og er það nú vel til bóta. Auraleysið var hins vegar farið að segja til sín.

Ég hef einnig gert heiðarlega tilraun til að skrá mig í verkalýðsfélag sem veitir mér aðgang að atvinnumiðlunum. Nú er bara að bíða eftir atvinnutilboðunum hehe. Það skýrist nú varla samt fyrr en í janúar þegar ég verð búinn að verja.

Nú er ég þó kominn í vinnu. Þetta er nú ekki beint hagfræðitengt starf en þó góð byrjun og ansi spennandi að mínu mati. Ég fékk starf hjá verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í uppsetningu tónleika af ýmsum stærðum og gerðum en nokkrir félagar mínir hér á Solbakken hafa unnið hjá því í dálítinn tíma.

Fyrstu tónleikarnir mínir voru settir upp í gær og í dag. En þetta er að ég held stærstu tónleikarnir sem verktakafyrirtækið hefur tekið að sér. Um er að ræða Elton John tónleikaröðina: The Red Piano sem haldnir verða á Parken. Við beinlínis setjum þetta allt upp frá a-ö. Allt frá sviðsgólfinu, neon-skiltunum, risaskjánum, uppblástnu fígúrunum til rauða flygilsins sjálfs. Ég varð næstum vitstola þegar ég sá þennan íðilfagra grip og að sjálfsögðu stalst ég til að handleika hann smá.

Tónleikarnir eru í kvöld, og að þeim loknum verður hafist handa við að rífa allt niður, þar sem næstu tónleikar í röðinni hjá Elton verða í Finnlandi þann 1. des nk.

Hér eru nokkrar myndir:














Þarna má sjá hið eina sanna Red Piano















Sviðið og stóri skjárinn















Hér eru svo fátæku íslendingarnir

Síðan mun þetta vonandi líta út einhvern veginn svona í kvöld:

sunnudagur, nóvember 16, 2008

15 klst til stefnu...

Síðasta fínpússun er í gangi núna og lítið sem kemur í veg fyrir að skil fari fram í hadeginu á morgun. Vakna snemma til að fara og prenta þetta og mæti svo hress á skrifstofu deildarinnar og skila. Eftir það ætlar Ketill að koma með mér á Chilli burger og við fáum okkur trúlega einn kaldan með. Það verður ljúft.

Framundan, handlagni heima við. Hillur bíða uppsetningar osfrv. Við Emilía ætlum að bralla eitthvað saman. Síðan verður einhver smá atvinnuleit. Leiðbeinandinn minn var einmitt mjög almennilegur að ræða atvinnuleit við mig. Þar fékk hann svolítið prik hjá mér.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

3 dagar eftir...

Ég er loks kominn á það stig í ritgerðinni að lesa hana alla yfir í heild. Nú verður farið rækilega vel yfir allt. Passa sig á að vera ekki í þversögn við sjálfan sig, ekki að stela quotum neins staðar, vera með enskuna fína, allar jöfnuútleiðslur réttar, myndir og töflur osfrv. Þetta er talsvert tímafrekt, þar sem ritgerðin verður líklega ekki lengri en hún er núna (96 bls).

Helstu niðurstöður virðast benda til þess að lánafarvegurinn hafi verið nokkuð solid fyrir heimili á árunum 1990-2007, en samt er eftirtektarvert hversu mikið hriktir í módelinu frá 2004. Ljóst að peningastefnan hefur misst tökin á lánaframboði bankana, eftir að Íb.lsj. var breytt í júní 2004, þegar menn fóru að lána og lána og skulda og skulda og skulda svo meira í erlendri mynt, sem bar að varast, en vegna lélegs aðhalds í peningamálum, þá tókst ekki að koma í veg fyrir það.

Niðurstöðurnar fyrir fyrirtækin virðast því miður ekki vera jafn sterkar, að vísu sýnir módelið að allt sé í lagi, en það næst ekki nægilega gott fitt í langtímasambandi landsframleiðslu. Lánaframboð virðist þó stöðugt. Þetta ber að túlka með varúð, enda getur verið að bankar hafi ekki verið jafn mikilvægir fyrirtækjum og ég hefði haldið í fyrstu. Lýsir sér kannski best í því hversu mikið fjármagn var sótt í greipar erlendra banka og fjárfestingasjóða án milligöngu íslensku bankanna.

Líkanið fyrir hvort tveggja, heimili og fyrirtæki, reynist talsvert gallað, þar sem það gefur indonclusive niðurstöðu. Þar með er ekki hægt að fullyrða hvort bankalánafarvegurinn sé virkur eða ekki. Þetta er líklega vegna mismunandi vandamála í sístæðni langtímasambanda sem erfitt er að módelera. Módelið er því ekki gott til að skýra private sectorinn út.

Þannig er það nú. Veit að þessi þvæla hérna fyrir ofan meikar ekkert sens, en það gerir hagfræðin hvort eð er ekkert heldur hehe.

Ljóst er að það verður skálað eitthvað í næstu viku, en ég skila víst á mánudagsmorguninn og gef sjálfum mér þetta því í afmælisgjöf á miðvikudaginn.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Síðasta vikan...

Þá er síðasta vikan mín í ritgerðarvinnunni runnin upp. Prófarkir eru byrjaðar að streyma í hús og ég því að fara yfir þessa dagana. Líkast til mun ég svo skila ritgerðinni á fimmtudaginn, þar sem lokað er á föstudag og laugardag á skrifstofu deildarinnar, en laugardagur var deadline.

Framundan í þessari viku er því að fara yfir restirnar af próförkunum í dag og á morgun vonandi. Á morgun hitti ég líka leiðbeinandann í síðasta sinn. Síðan er bara að ganga frá öllum lausum endum á miðvikudaginn til að unnt verði að prenta ritgerðina. Á fimmtudaginn, mun ég svo fara að prenta og skila svo fyrir klukkan 15.

Vonandi heppnast þetta allt saman. Er sko farinn að hlakka alveg ógurlega til að klára þetta.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Í nóttinni búa örlög okkar...

Þá er farið að styttast í að ég skila ritgerðinni. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið í lausu lofti núna síðustu daga. Hef verið að hræra aðeins í lánafarvegsmódelinu sem ég er að skrifa um og sjá hvort í því hrikti. Fann, einmitt betri spáeiginleika í gær og þá svitnaði ég, þar sem ég hafði einsett mér að vera búinn að skrifa allt sem skrifa þurfti. En út af þessu, þá varð ég að setjast niður og skrifa um það. Það tókst í gærkvöldi. En nú er ég paranoid um hvort ég geti bætt módelið meira. En svo verð ég náttúrulega að kunna að stoppa.

Nú er textinn reyndar í prófarkarlestri og því ekki annað að gera en að skrifa inngang og niðurstöður. Næsta vika mun þá fara í lagfæringar frá prófarkarlestrinum.

En í nótt er heldur betur mikilvæg nótt. Þá mun ráðast hver verður leiðtogi Bandaríkjanna næstu fjögur árin. Guð hvað ég vona að þessir blessuðu Bandaríkjamenn kjósi nú loksins eitthvað skynsamlegt yfir sig. Barack Obama er þar að minnsta kosti eitthvað skynsamlegra en McCain. Það hljómar a.m.k. allt betra en repúblikanar. Aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum hafa því miður ekki mjög góð áhrif á heiminn eins og reynslan síðustu 8 ár hefur sýnt sig.

En ég er hrikalega hræddur um að á morgun verði maður að nafni McCain sem flytur í Hvíta Húsið í Janúar eða Febrúar á næsta ári. Þetta er svona Murphy's law. Það sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis.