gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Eina vitið...

Seðlabankinn var í morgun að hækka vexti sína um 1,25 prósentur og fara því nafnvextir upp í 15%. Það er greinilegt að bankanum er alvara, enda er það eina vitið þó erfitt sé að una við. Enda hvá margir og spyrja hvers vegna bankinn hafi ekki lækkað vextina eins og t.d. Feddinn Bandaríski gerði nú í mars. Það er nú reyndar ekki alveg eftir bókinni að vera að lækka vexti núna.

Ein skýring á þessari djörfu lækkun Feddsins er kannski sú að fyrri hluta stjórnartíma Volckers var bankinn að berjast við verðbólguvæntingar og verðbólgu sem fóru úr hófi. Þá var vaxtastigið mjög hátt í byrjun níunda áratugarins og allt fram til loka áratugarins. Þetta var leiðin til að ná að stöðva hinar háu verðbólguvæntingar og þar með trúverðugleika því allan tíunda áratuginn og fram til dagsins í dag hefur verðbólga verið lítil á meðan stýrivextir hafa verið þokkalega lágir einnig. Því getur Seðalabanki Bandaríkjanna leyft sér lækkun vaxta nú þar sem þeir hafa náð mjög góðum tökum á verðbólguvæntingum og tyrggt þannig trúverðugleika á peningastefnu sinni. Þetta er það sem SBÍ þarf að ná fram einnig.

Þar sem ESB aðild og þar með evruaðild leysir ekki vandann okkar (þar sem stýrivextir Evrópska seðlabankans eru alltof lágir fyrir okkur og kynda þar með undir verðbólguvæntingar mun meira), þá er aðhaldssemi Seðlabanka Íslands eitthvað sem ég held að geti mun skilvirkar unnið bug á verðbólgu og þar með skapað verðstöðugleika hér á landi til langframa. Það er eina vitið!

miðvikudagur, mars 12, 2008

Dagar líða hratt en verkin vinnast hægt...

Það er alveg ótrúlegt hvað það getur verið erfitt að halda sér við efnið þegar maður er að byrja að skrifa ritgerð. Já, ég er ennþá í þessu "byrja"mómenti. Það hefur ekki stafur komist á blað ennþá, enda er ég að kafa í gögnum frá hinum og þessum aðilum. Ætli maður geti ekki sagt að vinnan sé meira en byrjuð en það er einhvern veginn ekki þannig í huga mér núna.

Við Kristín höfum nú fjárfest í forláta barnastól á hjólið sem verður vafalaust bylting þegar kemur að því að fara með Emilíu á leikskólann. Einnig fengum við flottan stelpuhjálm gefins frá Gunnhildi og Sigga og viljum við senda þeim þakkir fyrir.

Fjölskyldan ætlar svo að skella sér á klakann yfir páskana og fara í leiðinni í níræðisafmæli afa og brúðkaupsveislu Önnu og Hákons. Þetta verður ábyggilega það sem maður þarf. Þó mig hafi langað á Bítlatónleikana sem verða á laugardag fyrir páska, þá er nú ekki alveg hægt að leyfa sér allt, það er nú bara þannig. Verð að láta mér lynda Sgt. Pepper's plötuna í græjunum.

Þegar við komum svo aftur til Köben, verð ég að fara að skrifa undir samninginn og hefja aðalrannsóknina mína sem felst í lánahlið peningastefnunnar.
Ætli ég reyni nú ekki að drífa af eitt meil á leiðbeinandann minn eftir forrannsóknir mínar og sjái hvort ég geti notað eitthvað af því sem ég hef verið að pæla.

sunnudagur, mars 09, 2008

Krónukjarkur...

Nú fellur gengi krónunnar dag frá degi og fer vart framhjá neinum. Þetta kemur við buddu íbúðakaupenda sem tóku erlend lán, fyrirtækja sem standa í innflutningi, o.s.frv. Á sama tíma hefur vaxtamunurinn við útlönd verið að minnka sem ég vona að eigi ekki eftir að gera krónunni erfiðara fyrir en þarft er. Ég held það sé eitthvað til í að fólk er mun áhættufælnara nú en t.d. í fyrra og það er einmitt þessi áhættufælni sem grefur krónuna dýpra.

Ég myndi vilja sjá Íslendinga aðeins hugaðri en svo að vera í of miklum erlendum lántökum og standa frekar djarfa við fjárfestingar sínar í krónum. Íslenska krónan er eftir allt saman ekkert svo glataður kostur þegar á heildina er litið. Hún er mjög góður fjárfestingarkostur raunar. Ef menn eru svo að reyna að telja í sig einhvern kjark og bjartsýni (eins og virðist í eðli okkar) þá ættu þeir ekki að gleyma því gullna kauptækifæri sem nú er að skapast í okkar heimilislegu krónu.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Treysta íslendingar krónunni ekkert!!!

Hvað er það sem fær íslensk heimili svo mikið til að verða háð efnahagsástandi Evrópulanda, Japans og Sviss t.a.m. Af hverju er það svona rosalega miklu betra en að treysta bara íslensku krónunni með loðnunni, síldinni og hinum fiskunum á?

Nú hefur færst í vöxt að fólk fresti fjárfestingum sínum sem er vel en mig rekur samt í rogastans þegar ég heyri að mikil aukning hafi verið í lántöku í erlendri mynt að húsnæðislánum undanskildum. Ég get ímyndað mér að þarna séu menn að festa kaup á enn einum Land Cruisernum eða Range Rovernum eða einhverri annarri varanlegri neysluvörunni.

Er íslendingum þá alveg sama um hvernig fyrir þeim er komið? Með slíkri áhættufjárfestingu sem varanlegar neysluvörur eru oft á tíðum, er bara verið að leggja kyndla á bálið heima fyrir og einungis verið að skapa viðvarandi kreppuástand með háum vöxtum.

Þess vegna segi ég. Treystum krónunni eitthvað smá. Eina leiðin til að ná tökum á okkar vandræðum er að kæla okkur aðeins niður (fá okkur notaðan bíl ef það er nauðsynlegt) og ef nauðsynlega þarf að taka lán, þá í íslensku krónunni, því vextirnir verða bara háir á meðan við hegðum okkur á hinn veginn.

En burtséð frá þessu öllu, þá er komið svar við 5. umferð Gúgglileiksins. Svarið var Eric Clapton og var Þórir á ferðinni fyrstur með svarið. (Sorrý Pálína þótt þú hafir einnig komið með lagið alveg hárrétt). Þórir hlýtur þá 4 stig og skýtur sér upp úr botnsætinu í toppsætið. (Kem mynd ekki inn sem stendur).

Staðan eftir 5 umferðir:

1. Þórir Hrafn 6 stig
2. Bidda 5 stig
3.-4. Jón Sigurður 3 stig
3.-4. Hákon 3 stig

mánudagur, mars 03, 2008

Ekki var rétt getið síðast...

Nú mun vísbending númer tvö fara í loftið og eflaust er hún vegleg og gefandi.

Gúgglileikurinn

5. umferð. Önnur vísbending: 4 stig.

Einn liðsmanna Bítlanna gerði eitt sinn grín að tónlistarmanninum með því að semja lag um nammið sem hann átti víst að hafa úðað hvað mest í sig.