gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

mánudagur, janúar 29, 2007

40 vikur + 7 dagar eða 41 vika + 0 dagar og HM...

Þá eru liðnir 7 dagar frá settum degi og ekkert hefur gerst hjá litlu dömunni. Á meðan hún ákveður sig er bara að bíða og það er alls ekki hægt að segja að manni leiðist neitt, aldeilis ekki. HM í handbolta heldur manni við efnið og hef ég horft á flesta leikina. Spá mín fyrir síðustu leiki milliriðlanna gekk næstum eftir en það voru aðeins Rússar sem ég klikkaði á, bjóst við að Ungverjar myndu hafa þetta en það var líka ekkert smá tæpt. Örlög Ungverja réðust þegar 3 sekúndur voru eftir af leiknum gegn Rússum. Þeir þurftu einungis að halda jafnteflinu sem nægði þeim, en eins og Hákon nefndi réttilega, er hættulegt að "nægja" aðeins jafntefli og sannaðist það svo sannarlega í lok leiksins þegar Rússneski hornamaðurinn (að mig minnir hinn leikreyndi Kocharov) stal sigrinum með glæsilegu marki.

Nú ætla ég að spá aðeins í spilin meira og líta á átta liða úrslitin:

1. Frakkland - Króatía
Hér er á ferðinni athyglisverð rimma. Fyrrum heims- og Evrópumeistarar Frakka mæta hér Ólympíumeisturum Króata. Narcisse, Abati og félagar í franska landsliðinu hafa ekki verið sannfærandi það sem af er keppni en ég hef trú á að þeir láti að sér kveða í þessum leik. Þrátt fyrir það held ég að Króatar séu nú mun sterkari (ósigraðir í keppninni) og að mínu mati verða þeir heimsmeistarar 2007. Króatar komast því áfram í undanúrslit.

2. Pólland - Rússland
Rússar komust á afar dramatískan hátt áfram eftir að hafa verið lakari aðilinn í leiknum á móti Ungverjum. Þetta gefur þeim ansi mikinn þrótt bíst ég við en Pólverjar með Jurecki, Bielecki og Jurasik í fararbroddi munu held ég reynast sterkari aðilinn og komast því í undanúrslitin.

3. Þýskaland - Spánn
Að mínu mati eru Króatía, Þýskaland og Spánn með sterkustu lið keppninnar og hér verður því á ferðinni uppgjör tveggja af þremur bestu liðum í heimi. Pascal Hens, Christian Schwarzer og Florian Kehrman eru hreint rosalegir og ég held að heimavöllurinn verði mikilvægur Þjóðverjum og þeir taki þetta, jafnvel á hraðaupphlaupunum sem þeir eru listamenn í. Heimsmeistarar Spánverja munu því detta út.

4. Danmörk - Ísland
Af tvennu eða jafnvel þrennu illu er ágætt að Íslendingar fengu Dani frekar en Spánverja eða Króata. Enda er ávallt gaman að horfa á okkar menn mæta frændum vorum Dönum. Íslendingar gætu hugsanlega tekið Danina en þá þarf að bæta sóknarleikinn talsvert, þar sem á tíðum hefur hann verið hálf vandræðalegur. Boldsen og Boesen eru feikna sterkir í liði Dana en ekki má gleyma markvörslu Birkis sem hefur verið á heimsmælikvarða. Því miður ætla ég að vera með raunsæi í þessu og tippa a Danina í þessum leik.

Annars verður mikil hátíð hér á morgun. Menn ætla að hittast á barnum hér á kollegíinu, kneyfa öl og glápa á leikinn í "bróðerni" með Dönum. Danskurinn lítur á þennan leik sem formsatriði en við skulum bara sjá til. Vona bara að mér skjátlist með spána.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Smá öpdeit...

Nú er klukkan tvö, aðfararnótt miðvikudagsins 24. janúar 2007. Þetta þýðir að rúmur sólarhringur er liðinn frá því settum degi fæðingar lauk. En það hefur ekki bólað á dömunni ennþá. Kristín er við ágætis heilsu, er ekkert slöpp, frekar hressari en hún hefur verið. Kannski próflok hafi svona áhrif, ég veit ekki.

Ég mun þó halda áfram að koma með fréttir hér eða á duddilius sem verður trúlega með meira um málið.

föstudagur, janúar 19, 2007

Jíha...

Þá hefur próftörn sem á sér ekki hliðstæðu á skólaferli mínum sem spannar yfir 20 ár, klárast. Hef nú verið í prófum frá því í nóvember og er búinn að fá nóg. Hef loks orðið tíma fyrir undirbúning fyrir hnátuna. Var að smíða rúmið hennar í gær (takið eftir: "smíða" ) en við fengum það víst í IKEA. En alveg ljómandi gott rúm samt, með tveimur stillingum fyrir botninn, þannig að til að byrja með verður hærri stillingin notuð svo við fáum ekki í bakið þegar við tökum telpuna upp og svo þegar líður á og hún stækkar, má á einhverjum tímapunkti færa botninn neðar, svo hún fari nú ekki að klifra upp úr rúminu sínu og meiða sig.

Annars hefur verið svolítið slæmt veður undanfarið en sem betur fer ekki eins slæmt og hefur verið í Bretlandi. Það gerðist reyndar stórmerkilegur hlutur í garðinum hér fyrir framan á sunnudaginn var. Upp úr hádegi heyrðum við þvílíkan hávaða fyrir utan en kipptum okkur ekki meira upp við það. Það var svo ekki fyrr en ég fór út að ná í hjólið til að fara á bókasafnið að ég sá hvað hafði orsakaði þennan rosalega hávaða. Eitt af stóru trjánum í garðinum hafði klofnað. Veðurofsinn hefur verið svo mikill að það bara gaf sig. Heppilegt að enginn varð fyrir þessu, þar sem lítil börn voru að leik í garðinum á meðan þetta gerðist.

En nú ætlum við Kristín að fara í bæinn og kaupa lak á rúmið, sængurver handa litlu og eitthvað dúllerí á rúmið hennar. :o)

laugardagur, janúar 06, 2007

Fer þessu nú ekki að linna?

Jæja, janúar kominn, nýtt ár byrjað, það tvö þúsundasta og sjöunda á gregorískan kvarða. Vá maður og ég í prófum. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Ekki búinn fyrr en 17. janúar, hvað á svoleiðis að þýða. Kristín er í enn verri aðstöðu, á eftir 2 próf og eina fæðingu.

Þessi mánuður á vafalaust eftir að verða einhver mikilvægasti mánuður sem ég hef lifað hingað til, þar sem ég fæ nafnbótina: pabbi, faðir, far, papa og svo framvegis. Ég bíð rosa spenntur, en ég væri ábyggilega búinn að koma mér í betri stellingar fyrir þetta ef ekki væru þessi "BLESSUÐU" próf alltaf hreint. Alltaf sama sagan. En þetta VERÐA mín síðustu "ekkihægtaðhaldajól"apróf. Nóg komið af pirri, en svona er ég á próftíma og leyfi mér það alveg, sé ekki fegurð heimsins á próftíma.

En nú fer að koma sá tími að ég fer að byggja lítið rúm handa elsku litla barninu mínu sem er byrjað að heilsa okkur með einstaka bungum út um allan mallann á Kristínu. Þá mun sko verða stuð hér á bæ.