gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Nú fer að draga til tíðinda...

Skólarnir bara að byrja. Kristín er nú að fara á laugardaginn út til Köben og skilur mig því eftir á fróni í bili. Ég hef hins vegar hugsað mér að fara út um miðjan september. Vona bara að það verði ekki orðið klikkað að gera í skólanum þegar ég kem.

Nú er hins vegar komið svar við 19. leik. Nú var það nýr maður á lista sem heitir Þórir Hrafn Gunnarsson kenndur við Strump sem kom með svarið Intel. Hér var því verið að spyrja um fyrirtæki sem framleiðir hátæknivöruna örgjörva. En Þórir Strumpur hlýtur hér 2 stig fyrir.

Ekki er langt til þess að bíða að síðasti leikur í þessari fyrstu keppni líti dagsins ljós.

Stigataflan eftir 19 leiki:

1. Baldur 13 stig
2. Anna Ósk 9 stig
3. Jón Sigurður 8 stig
--------------------------
4.-6. Gauti 5 stig
4.-6. Hilla 5 stig
4.-6. Bidda 5 stig
7.-10. Rut 4 stig
7.-10. Þórir Hrafn 4 stig
7.-10. Helgi Heiðar 4 stig
7.-10. Jón Ólafur 4 stig
11. Óli Gneisti 3 stig
12.-14. Þórir Strumpur 2 stig
12.-14. Pálína 2 stig
12.-14. Sverrir 2 stig

Baldur er enn með forystu og er nú hvað úr hverju að fara að tryggja sér sigurinn en sjáum hvað setur. Fimm stig eftir í pottinum.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Af meintum hryðjuverkum Kúrda...

Já, það er ávallt léttir þegar prófum líkur. Mér fannst þetta próf ganga stóráfallalaust fyrir sig svossum, en maður veit aldrei. Helgarinnar verður trúlega minnst fyrir helgi hins góða málsverðar. Á fimmtudag bauð ég Valda í hádegismat í bankanum (lambalæri bernaise), á föstudagskvöldið grilluðum við frændsystkinin lambalæri og svínakótilettur og á laugardagskvöldið fórum við Kristín á Fjöruborðið á Stokkseyri og pöntuðum okkur Humarsúpu og verð ég að segja að þetta hafi verið besta humarsúpa sem ég hefi smakkað um dagana.

Það er ekki laust við að maður hafi orðið smeykur þegar ég heyrði fréttirnar á leiðinni í vinnuna í morgun. Fjórar sprengjur höfðu sprungið í Tyrklandi nálægt hótelum sem um 300-400 íslendingar voru á. Herskáir kúrdar eru taldir hafa skipulagt þessa árás. Á meðal íslendinganna á einu hótelanna eru tengdaforeldrar mínir og hafði ég tafarlaust samband við Kristínu þegar ég heyrði þetta. Af fréttum að dæma hafði ekkert mannfall orðið en nokkrir höfðu særst en engan íslending sakaði. Það var svo að koma símtal frá Þórarni (pabba Kristínar) sem sagðist hafa horft beinlínis á eina ruslatunnusprengjuna springa, en annars væri allt í lagi hjá þeim. Maður hugsar sér bara hversu íslendingar eru oft heppnir að lenda ekki í öllum þessum hörmungum þó þeir séu oft nærri.

Einn annar íslendingur var heppinn í morgun. Hvaða guðslukka var með íslenska stráknum í Köben þegar honum var kastað fyrir lest í morgun? Maður spyr sig, hlaut bara skurði og skrámur.

Jæja, þá er komið að fjórðu vísbendingu í leik 19. Ekki er komið rétt svar enn, en fólk er orðið bísna nærri. Nú eru stigin sem eftir eru í pottinum einungis sjö talsins og því ljóst að baráttan um fyrsta sætið stendur einungis á milli Baldurs, Önnu Óskar og Jóns Sigurðar.

Leikur 19: Fjórða vísbending: 2 stig.

Nafn fyrirtækisins kemur oft fyrir á tölvukössum.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Ekki kom svar í þetta sinn...

Jæja, ég hef lítið að blogga um þar sem maður er önnum kafinn við próflestur og vinnu, ekki nema þá fólk sé áhugsamt um lemmu Hotellings, lemmu Shephards, Envelope theorem, Slutsky equation, Roy's Identity, Walras´ law, fastpunktssetningu Brouwer's, Paretó hagkvæmni, duality fræðina eða velferðarsetningarnar tvær, svo ég tali nú ekki um upplýsingahagfræðina.

Fróðleiksfúsir gefi sig fram...

En þá er það bara vísbending 3 og það er ljóst að þeir sem eru í sætum 1-6 geta nú einir átt möguleika á sigri þar sem einungis 8 stig eru í pottinum, en alltaf tilefni til að bæta stöðu sína.

Leikur 19: Þriðja vísbending: 3 stig.

Fyrirtækið var brautryðjandi í framleiðslu hátæknivöru sem flestir Íslendingar (alla vega) nota á hverjum degi.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Mikil uppsöfnuð þreyta gerir vart við sig...

Próf og full vinna eiga ekki saman, en sem betur fer er það bara þessi vika og svo er þetta búið í bili. Það er ekki til neitt leiðinlegra og meira stressandi en þessi blessaða próftíð og þá sérstaklega að sumri. Þeir vita það sem hafa prófað. Ég t.d. verð allur ómögulegur.

Þá er það spurning 2 í leik 19 og nú eru 9 stig eftir í pottinum.

Leikur 19: Önnur vísbending: 4 stig.

Segja má að fyrirtækið sé alþjóðlegt og vinni með rafmagn.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Próf á næsta leyti...

Já, nú er bara komið að prófi á föstudagsmorgun og ég kann ekkert eins og venjulega. Hrikalega leiðinlegt búið að vera að fara í vinnuna kl. 8, koma heim kl. 4, hálf 5 og fara svo út í Odda eftir það og vera til miðnættis. Mjög einhæfir og þurrir dagar. Leyfði mér þó aðeins að sletta úr klaufunum á Menningarnótt og síðan var farið í bústað á föstudagskvöldið og vil ég þakka Herdísi kærlega fyrir að bjóða okkur.

En nú er ég að hugsa um að setja leik 19 í gang. Þetta er jafnframt næstsíðasti leikurinn í þessari keppni (einhver verður að vinna þetta). Síðan verður bara önnur keppni þar sem svo sigurvegarinn í þessari keppni mun fá tækifæri til að verja titilinn. Á þessari stundu er það hinn snjalli teiknari og hagfræðingur Baldur sem er líklegasti kandídat í að vinna þessa keppni, og getur hann í raun tryggt sér sigurinn með svari sem gefur tvö stig eða meira. Sjáum hvað setur.

Leikur 19: Fyrsta vísbending: 5 stig.

Spurt er um þekkt fyrirtæki.

Fyrirtækið hefur um árabil starfað í rannsókna- og þróunargeiranum (R&D).

föstudagur, ágúst 18, 2006

Fyrirsát uppreisnarmanna í morgunsárið...

Á sjötta tímanum í morgun var ég vakinn upp af fegrunarblundi, þegar á mig réðst æðvængja. Við þetta sprett ég á lappir og kveiki ljósið til að ná tökum á fyrirsátinni. Eftir að hafa flúið um stundarsakir af yfirráðasvæði mínu (herberginu mínu), kom mér í hug að herbergið væri ekki nógu stórt fyrir okkur báða. Notaði ég því herkænsku mína til að upphugsa gagnárás gegn óvininum. Kallaði ég eftir aðstoð Morgunblaðsins sem bandamanns (sem útvegaði gjöreyðingarvopn til verksins) og lét til skarar skríða. Gagnárásin heppnaðist fullkomlega þar sem Morgunblaðið sýndi mátt sinn í verki og gjörsigraði óvininn. Mannfall minna manna var með minnsta móti en ekki er hægt að segja það um her æðvængja.

Reyndist óvinurinn vera liðsmaður hinna herskáu öfgasamtaka trjágeitunga sem stóðu að baki tilræðinu og hlaut hann vota greftrun í kjölfarið.

En þá er komið svar við leik 18. Þetta var að sjálfsögðu athöfnin að klappa. Í þetta sinnið var um nýja konu á lista og býð ég hér með hina nýbökuðu móður Pálínu velkomna í hóp þessa fyrirmyndarfólks. Hlýtur hún 2 stig í baráttunni um titilinn.

Stigataflan eftir 18 leiki:

1. Baldur 13 stig
2. Anna Ósk 9 stig
3. Jón Sigurður 8 stig
--------------------------
4.-6. Gauti 5 stig
4.-6. Hilla 5 stig
4.-6. Bidda 5 stig
7.-10. Rut 4 stig
7.-10. Þórir Hrafn 4 stig
7.-10. Helgi Heiðar 4 stig
7.-10. Jón Ólafur 4 stig
11. Óli Gneisti 3 stig
12. Pálína 2 stig
13. Sverrir 2 stig

Enn sem fyrr er það Baldur sem vermir toppsætið, og eins og sjá má er baráttan enn all hressileg því 10 stig eru eftir í pottinum.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Lærdómur er harður dómur...

Þá er setið við bókalestur fram eftir kveldi. Beint úr vinnu, út í Odda og lesið til 12. Þannig er það nú bara. Næst ekki mikill lestur nema með þeim hætti, en ég er þreyttari á þessu með hverjum deginum sem líður. Hef nú rúma viku til stefnu þar sem prófið sem ég er að fara í er á föstudaginn 25. ágúst nk. Það gæti því náðst að lesa eitthvað pínulítið til viðbótar fram að þeim tíma ef þessi leið er farin.

Nú er kominn tími á fjórðu vísbendingu í leik 18.

Leikur 18: Fjórða vísbending: 2 stig.

Fólk tjáir sig stundum á þennan hátt þegar það þakkar fyrir sig, ber virðingu fyrir einhverju(m) eða lýsir aðdáun sinni.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Landsleikur í kvöld...

Í kvöld ætlum við Kristín og Gauti að skella okkur á vináttulandsleik Íslendinga og Spánverja. Ég verð nú að segja að ég er svolítið vonsvikinn þegar Eiður getur ekki spilað leikinn og ekki heldur Puyol né Xavi. Það er nú engin tilviljun sem ræður þessu. Leikmennirnir spila allir með Evrópumeisturum Barcelona og eiga erfiðan Super Cup leik fyrir höndum á sunnudag. En eins og ég segi þá er leiðinlegt að geta ekki barið þessa kappa augum þar sem t.a.m. Puyol er einn af bestu varnarmönnum í heimi.

Skrítið samt að Spánverjar hafi verið sagðir mæta með sitt sterkasta lið...

Þá er komið að þriðju vísbendingu en mörg góð svör komu en ekki var um að ræða neitt rétt svar.

Leikur 18: Þriðja vísbending: 3 stig.

Athöfnin er ekki iðkuð af skátunum sem tjáning.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Gay Pride helgin afstaðin...

Fór í gleðigöngu Hinsegin daga ásamt Þengli og skemmtum við okkur bara vel. Um kvöldið brugðum við okkur svo til Kristjáns í Penthásið hans í Austurstræti. Ég verð að segja að staðsetningin gæti ekki verið betri og íbúðin þá ekki heldur. Vorum að spá í að kíkja á Gay Pride ballið en gáfumst upp þegar við horfðum á röðina sem var farin að lengjast all verulega.
Um fjögurleytið fór ég síðan heim, sem mér þótti alltof seint eiginlega.

Nú er komið að annarri vísbendingu í leik 18, þar sem enginn hafði þetta rétt í þeirri fyrstu.

Leikur 18: Önnur vísbending: 4 stig.

Athöfnin flokkast yfirleitt (eiginlega alltaf) sem ákveðin tjáning.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Mér finnst rigningin vond...

Jæja, já það rignir yfir okkur vætunni þessa dagana. (Gúrkutíð í bloggi hjá mér) ehemm....
Ætli það sé þá ekki rétt að setja í gang 18. leikinn, úr því maður hefur ekkert að segja.

Leikur 18: Fyrsta vísbending: 5 stig.

Spurt er um athöfn.

Athöfnin hefur frá því elstu menn muna orðið að hefð meðal manna.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Eldur eldur...

Vaknaði á áttunda tímanum í morgun við það að einhver fyrir utan gluggann minn hrópaði í sífellu: "eldur, eldur..." og "íbúðin er full af reyk, drullið ykkur út..." . Við þetta spratt ég á lappir til að kanna hvað væri á seyði. Ekki virtist nú vera neitt að hjá okkur á Víðmel 64. Sá sem var að kalla þetta var nágrannasonurinn (um tvítugt) sem kominn var út á náttfötunum sínum og kvartaði sáran undan reykeitrun og hóstaði mikið. Honum virtist talsvert brugðið þar sem hann gekk fram og aftur í einhverri örvilnan. Aumingjans stráknum sem virtist greinilega ekki vera að höndla ástandið gekk líka eitthvað illa að fá fólkið sem inni var, út úr húsinu og var næsta skrefið hjá mér að ýta á 1 1 2 á símanum, þar sem málið virtist alvarlegt.

Aldrei sá ég reyk leggja frá íbúðinni en var þó búinn að grípa símann. Rétt áður en ég var byrjaður að hringja, var strákurinn þó búinn að því, svo að ég hætti við. Næstu mínútur voru hreint magnaðar. Klukkan var u.þ.b. 07.20 þegar hann hringdi og ég held að klukkan hafi ekki verið nema um 07.24 þegar lögreglubíll með sírenur kom inn í götuna og tveir lögreglumenn hlupu út úr bílnum og inn í húsið. Brátt kom svo slökkvibíll með tveimur slökkviliðsmönnum og einum reykkafara. Það er ekkert smá hvað þessir drengir eru miklir fagmenn, tóku strax stjórn á ástandinu, þar sem greyið strákurinn átti mest erfitt með sjálfan sig. Öryggið á staðnum jókst umtalsvert. Þeir voru ekki lengi að koma fólkinu út, sem var tvennt, kona á sextugsaldri og aldraður maður sem gekk við staf.

Svo virtist vera að um smávægilegan eld og reyk hefði verið að ræða. Eldsupptök hafa trúlega verið inni á baðherbergi, miðað við það sem ég heyrði a.m.k. og út frá hárblásara eða einhverju slíku.

Eftir að reykkafarinn hafði lokið sínu verki um 07.42 voru þeir á bak og burt og ró skapaðist á nýjan leik og mér þótti best að fara að týja mig í vinnuna. Betur fór en á horfðist. Hvað það getur verið óþægilegt að vakna á þennan hátt.