gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

föstudagur, september 16, 2005

Þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi (réttara sagt yfir í Neskirkju) þá lenti ég í lyftunni með einum af tölvuköllunum. Hann fór að segja mér að hann hefði hitt Davíð Oddsson á vappi fyrir utan bankann. Þarna var Davíð í fylgd með heldur undarlegum lögreglumanni með svört 70' s gleraugu og gott ef Gísli Marteinn hafi ekki verið þarna líka en hann sagði að það hefði sést ógreinilega. Maðurinn bætti því við að hann hefði nú ekki kunnað við annað en að taka í spaðann á Davíð til að bjóða hann velkominn til starfa. Audibifreið var ekki langt undan og einnig bíll frá sjónvarpinu. (Davíð má ekki sjást í kringum bankann þessa dagana án þess að vera áreittur af frétta- og blaðamönnum). Ég var nú orðinn mjög hissa á þessari sögu og fór náttúrulega að furða mig á því hvað Gísli Marteinn hefði verið að gera þarna í föruneyti Davíðs og ég tala nú ekki um hvað þessi undarlegi, nördalegi lögreglumaður hefði verið að gera þarna líka, og bara yfirleitt hvað var þarna um að vera. Af hverju var Davíð að kíkja í bankann svo snemma?

Þegar við tölvukallinn nálguðumst loks kjallarahæðina og stigum síðan út úr lyftunni til að ganga inn í bílageymsluna, spurði hann mig í framhaldinu, hvort ég ætlaði ekki að horfa á Spaugstofuna á laugardaginn kemur.

Að því búnu settist hann inn í bílinn sinn og ók af stað áleiðis út úr Kolaportinu.

miðvikudagur, september 14, 2005

Það er langt síðan ég hef tjáð mig hagfræðilega, en ég leyfi mér það nú.

Ég hef haft svolítinn áhuga á áhrifum væntinga á mörkuðum og þess háttar. Þetta er merkilegt fyrirbrigði, sem getur haft stundum svakaleg áhrif á líf okkar.

Setjum þær í samhengi við ástandið núna sem dæmi. Eins og kannski mörgum er kunnugt hefur verðbólga farið á góða siglingu eða upp í 4,8% sem samsvarar sér engan veginn við stefnu Seðlabankans um 2,5% verðbólgumarkmið. Af þessum sökum hafa einmitt væntingar um stýrivaxtahækkanir magnast upp, (það er vegna þess að með stýrivaxtahækkun er hægt að draga úr þenslu í gegnum hið svokallaða miðlunarferli peningastefnunnar). Nú, vegna þessarar miklu verðbólgu þá hafa bankarnir búist við allt frá 0,5 - 0,75 prósentna hækkun og hafa þeir greinilega mikinn trúverðugleika, þar sem úrvalsvísitala hlutabréfa hefur lækkað um ca. 2% á dag síðustu tvo, þrjá dagana. Þarna er líklega á ferðinni flótti fjármagns yfir í áhættuminni fjárfestingar eins og skuldabréf sem einmitt vænst er að gefi meiri arð eftir vænta stýrivaxtahækkun.

Þannig að hér erum við að sjá dæmi um áhrif þessara áhrifamiklu væntinga sem mikið er talað um í fjölmiðlum og víðar. Spennandi verður að sjá hvað gerist þann 29. sept nk. þegar Peningamál Seðlabankans verða gefin út.

Það skal síðan tekið fram að ég hef ekki neina einustu hugmynd um hvað stjórn Seðlabankans ætlar að gera í sambandi við stýrivexti sína, þann 29. sept.

miðvikudagur, september 07, 2005

Skólamálin hafa verið svolítið skrítin undanfarið, vægast sagt, en CBS skólinn sendi mér loksins tölvupóst um að ég hefði komist inn í þessi markaðsfræði og stjórnunarfög sem ég þurfti að taka til að komast í Fjármálin hjá þeim. Málið er bara að það er kominn 7. september og önnin byrjaði í byrjun september og því er þetta allt of seint. Það er svo skrítið hvað maður má upplifa í svona málum. Leiðinlegt þegar ekkert gengur upp. Þetta var náttúrulega búið að vera í deiglunni frá því í janúar en svo kemur þetta allt of seint. En að öðru. Ég mun hætta í Seðlabankanum þann 30. september nk. og fer því með honum Birgi síðustu lyfuferðina niður. En þá ætlar hann Birgir einmitt líka að hætta. Ég næ því ekki að vera undir stjórn Davíðs Oddssonar. En eins og tengdapabbi sagði, þá er Seðlabankinn að missa tvo píanóleikara, því við Birgir eigum það sameiginlegt að vera píanóleikarar og höfum báðir dálæti á dinner músík. Í sambandi við Davíð, þá hef ég smá áhyggjur af honum Erni Árnasyni, þar sem sá síðarnefndi verður að finna sér annan stjórnmálamann til að herma eftir. Örn Árnason mun því leggja hárkolluna á hilluna á næstunni einnig.