gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Nýr gúgglileikur...

Jæja, er ekki löngu kominn tími á nýjan gúgglileik? Veit að sumir eru orðnir eftirvæntingarfullir. Sem stendur hafa þeir Jón Sigurður og Hákon nauma forystu í leiknum en með réttu svari nú getur hver sem er tekið nokkuð örugga forystu. En hér kemur leikurinn!

Gúgglileikurinn

4. umferð: Fyrsta vísbending. 5 stig.

Spurt er um borg í Bandaríkjunum.
Vinsæl bresk hljómsveit samdi á sjöunda áratugnum lag um fylkið sem borgin er jafnframt höfuðborg í.

föstudagur, janúar 25, 2008

Síðasta masterprófið...

Í gær lauk ég mínu síðasta prófi á masterleveli og því 80 einingar í höfn. Framundan er því lokaritgerð sem mun halda mér uppteknum að minnsta kosti næstu sex mánuðina.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búinn í prófinu þá kom yfir mig sælutilfinning og ég var í miklu stuði til að fagna hreint rosalega. Fór því aðeins á Solbaren til að kíkja á síðustu mínúturnar í leik Íslands og Spáns á EM sem var reyndar búinn þegar ég kom. Þar mætti ég niðurlútum einstaklingum sem voru í allt öðru stuði en að fara að skemmta sér og því fjaraði það gaman út á augabragði. Þar sem Kristín var ekki heima og ég í miklu fagnaðarstuði sem ég náði ekki að skila af mér, þá endaði ég með því að glápa á Friends og Simpsons og bældi þannig sigurvímu mína niður einn með sjálfum mér. Þessa helgina verður nú trúlega erfitt að halda upp á próflokin þar sem hér er fátt af fólki sem ég þekki. Ketill í Horsens, Þórir og frú heima á Íslandi og svoleis. Þetta verður því bara að bíða en þegar næst verður tekið til við fögnuð þá verður það væntanlega af öðru tilefni en þessu.

föstudagur, janúar 04, 2008

Gleðilegt nýtt ár...

Árið 2007 verður minnisstætt fyrir eitt og annað en það sem hæst stendur upp úr er tvímælalaust fæðing yndislegu dóttur okkar Kristínar.

Nú eru ekki nema um 16 klst. þar til við yfirgefum Ísland og höldum til Danmerkur að takast á við ný verkefni. Við náðum að komast yfir heilmargt í þessu stutta fríi hér á Íslandi og er alltaf ánægjulegt að geta hitt svo marga sem raun bar vitni þrátt fyrir að veðráttan hafi verið vægast sagt ömurleg.

Þá er bara að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér bæði fyrir okkur fjölskylduna, fyrir íslensku þjóðina og fyrir heimsbyggðina? Fyrirséð er að Íslendingar verða með á Evrópumótinu í handknattleik í febrúar og forsetakosningar virðast einnig óumflýjanlegar (þökk sé labbakútnum honum Ástþóri). Einnig er séð fyrir að ég takist á við skriftir á árinu þar sem meistararitgerð bíður mín á vormánuðum. Emilía mun væntanlega taka sín fyrstu skref og tennur fara að láta sjá sig. Fyrir heimsbyggðina er kannski mikilvægt hvernig a.m.k. tvennar kosningar munu fara. Nú í febrúar verður blásið til þingkosninga í Pakistan og svo til forsetakosninga í Bandaríkjunum í nóvember.

Blog, blo, blo, blog, blo, blo, blooo, blo, blog, bloooog, blo, bloooog, blog.
En annars óska ég öllum gæfu og velfarnaðar á árinu 2008!!!