gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

fimmtudagur, júní 21, 2007

París vs. Bagdad (Hver er munurinn?) ...

Það kom loks að því að fréttir bárust af vinkonu minni henni París Hilton. Ég var bókstaflega farinn að hafa áhyggjur af að eitthvað væri að. Það fer reyndar um mig smá hrollur ef ég fæ ekki a.m.k. eina frétt á viku sem fjallar um París. Í dag komu reyndar ekkert alltof góðar fréttir af henni, þar sem hún getur víst ekkert borðað í fangelsinu og er þreytu- og veikluleg.

Ég skil reyndar ekki allt þetta skítkast út í hana. Fréttir af henni eiga alveg fótfestu á fréttamiðlum. Allar fréttir af henni eru góðar fréttir. Í sannleika sagt, því maður opnar ekki mbl.is eða visir.is öðruvísi en að sjá fréttir af bílsprengjuárásum í Írak sem granda jafnvel 50 manns í einu. Þá verður mér fyrst illt. Sú tilhugsun að þarna farast trúlega hlutfallslega fleiri óbreyttir borgarar og börn en hermenn vekur einhvern óróleika í mér.

Á meðan við fáum fréttir af óförum vinkonu minnar hennar Parísar sem oftar en ekki eru um að hún hafi læst lyklana sína inni í bílnum sínum eða týnt hundinum sínum, þá eru það SVO jákvæðar fréttir í samanburði við hitt. Fréttavefir verða vitanlega að birta eitthvað alla daga og a.m.k. þegar hún birtist á prenti, þá er að minnsta kosti ekki pláss fyrir ógeðfellda stríðsfrétt á meðan. Vil ég þá frekar fá fréttir af henni París minni, já takk.

sunnudagur, júní 03, 2007

Fótboltinn og fyrirliðinn...

Þetta var mikil fótboltahelgi eins og margir geta vottað. Sögulegar málalyktir urðu í leik Dana og Svía þegar leikurinn var blásinn af með dómaraúrskurði vegna árása. En svo var einnig háður leikur heima á Íslandi milli heimamanna og Liecthensteina í Evrópumótinu. Þessi leikur endaði með jafntefli 1-1 eins og flestir hafa heyrt og séð. Sumir hafa gert því skóna að Eyjólfur eigi að segja af sér og aðrir segja að leggja eigi landsliðið af. Ég veit ekki með það síðarnefnda en ég fór að pæla í einu sem átti sér stað í leiknum heima.

Eiður Smári var dæmdur rangstæður á einum tímapunktinum. Þetta er náttúrulega einn af þessum svekkjandi en venjulegu dómum sem verða í hverjum leik. Eiður fer þá að rella eitthvað í dómaranum vegna óréttmætis dómsins. Jú jú, þetta er mjög algengt að gerist á vellinum. Fyrir þetta harmakvein hlýtur svo landsliðsfyrirliðinn gult spjald að launum og vegna þess að hann hafði fengið slíkt ið arna í leik áður, hlaut hann leikbann fyrir vikið.

Nú hefur verið á milli tanna fólks, þetta atvik (sem og þetta í Danaveldi), og meiningar eins og þær að Eiður eigi nú að vita betur en svo að vera að rella í dómara út af slíkum smámunum. Reynslan eigi nú að vera mælistika á hegðun leikmanns á vellinum.

Ég er reyndar farinn að halda að reynslan hafi einmitt sagt Eiði að fá eins og eitt gult spjald í þessum leik. Fótbolti er iðnaður sem veltir milljörðum króna á ári og er það ástæðan.

Eiður er sá Íslendingur sem hefur unnið bæði hollenska og enska meistaratitilinn. Hverju stendur hann svo frammi fyrir? Jú, sjálfum spænska meistaratitlinum með Barcelona. En liðið situr í fyrsta til öðru sæti spænsku deildarinnar ásamt Real Madrid. Tveir leikir eru eftir í keppninni og eru þeir á næstu dögum. Hvað er þá annað hægt en að ná sér í frí frá glötuðum leik á móti svíum í Stokkhólmi. Atvinnumenn verða að einbeita sér eins og aðrir og því er best að vera að troða ekki einhverjum ómerkilegum leik inn í málið.

Ég vona því að leikbannið sem Eiður hlaut á móti Liecthenstein komi til með að færa honum, fyrstum íslendinga, spænska meistaratitilinn sem verður þá sá þriðji í röðinni í mismunandi löndum. Geri aðrir betur!!!