gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, september 12, 2007

Fyrsta Danmerkurhaustbloggið ...

Ótrúlegir tímar sem við lifum á, eina stundina er maður á Íslandi og þá næstu í Danmörku. Gengur bara inn í álflykki með vængi og stígur svo út nokkrum klukkustundum síðar allt annars staðar. En jæja, þetta er nú 21. öldin en ekki árið 1902 eða þar um bil, þegar það hefði þótt fásinna af nokkrum manni að tala svona.

Lífið er komið í venjulegan farveg fyrir utan stíflaðan eldhúsvask sem hefur gert eldhúsverkin mun óþjálli fyrir vikið. Skólinn byrjaði í síðustu viku og er ég bara að taka eitt fag sem er mikill lúxus en þá gefst mér tími til að hugsa um ritgerðarverkefni á meðan (tala nú ekki um stelpurnar mínar tvær).

Emilía er komin í annað svefnprógramm þar sem nú á að stoppa brjóstagjöf á næturnar, það er bísna erfitt og ég finn alveg hversu orkulaus ég er á daginn eftir lítinn svefn, en ég vona að þetta eigi eftir að skila sér í lengri svefni hjá Emilíu og þar með hjá okkur (það er náttúrulega ekki tækt að vera alltaf að vakna tvisvar, þrisvar á nóttunni). Emilía er líka að fara á vöggustofu frá byrjun október og við getum farið að skipuleggja okkur betur varðandi lærdóminn. Annað okkar þarf að vera að fylgjast með Emilía á meðan hitt lærir eins og staðan er í dag.

Annars hefur maður farið pínulítið út á lífið, þ.e.a.s. Tour De Chambre partý hjá Katli, en þar mixuðum við Þórir Mojitos á liðið og ég eyddi dágóðum tíma í að finna lyftutónlist við hæfi. Uppskera mín voru um 3 klst af tónlist en hugsanlega var ekki hlustað í lengur en 15 mínútur á hana, en jæja, greinilegt að talsvert af þeirri tónlist sem mér finnst flott er ekki að virka í fjöldann. Að vísu var nú verið að búa til ákveðna "small-talk" stemningu svo ég tek þessu ekkert alltof illa hehe.

Á morgun er ég svo að fara að reyna fyrir mér í raddprufu fyrir kór hér úti. Ingvi bauð mér að koma í prufu og kórstjórinn hringdi svo í morgun. Löngu kominn tími á að dusta rykið af raddböndunum sem alltof lengi hafa legið á hillunni.

En já, þannig er það nú, við Kristín erum síðan að reyna að finna hentuga dagssetningu fyrir Manchesterferð þar sem litlir strákatvíburar eru komnir í heiminn hjá Emmu systur Andys og Christian eiginanni hennar.