gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

mánudagur, apríl 05, 2004

Jæja, það er víst bezt ég bloggi aðeins. Síðustu dagar og vikur hafa verið viðburðarríkar. Tónleikar okkar í Háskólakórnum gengu ótrúlega vel að mínu mati og er niðurstöðu gagnrýnenda beðið með mikilli eftirvæntingu. Ég er einnig mjög ánægður með hvað helgin gekk vel upp á lærdóm að gera. Ég tel mig hafa lokið við öll verkefni annarinnar þessa helgi og því ekki nema eitt að gera: Fara að skrifa ritgerðina miklu sem ég þarf að öllum líkindum að skila þann 19. maí nk.

Ég lenti í einu mjög fyndnu atviki áðan. Þannig var að Kristín sendi öllum kórfélögum sms úr símanum mínum og ekki leið á löngu þar til ég fór að fá fullt af sms-um frá alls konar númerum sem ég vissi ekkert hver voru. Fljótlega áttaði ég mig þó á hvað var í gangi. Einn sendandinn var þó ekki par ánægður með sendingarnar sem kórinn hefur verið að senda og skipaði MÉR að gjöra svo vel að hætta að senda sér endalaust sms um alls konar boðanir, kóræfingar o.fl sem hann hafði verið að fá í allan vetur. Málið var að í öll skiptin sem kórinn hefur sent eitthvað, þá hefur það verið í gegn um siminn.is og því notaði þessi aðili tækifærið og skammaði MIG fyrir þetta allt saman þar sem loksins hafði verið sent úr ákveðnum síma, (þ.e. mínum). Ég fór nú og athugaði hver þetta hafði verið og skv. listanum okkar Kristínar þá var þetta Bjartur en síðan kom í ljós að númer hans hefur allan tímann verið rangt skráð og því kom þetta svolítið fyndið út þegar einhver Jón úti í bæ hafði verið að fá þessi sms í allan vetur. Ég sendi því einlægt afsökunarbréf til þessa ágæta manns fyrir kórsins hönd og sagði honum að hann yrði tafarlaust tekinn af listanum eins og hann óskaði. Hitt er svo annað mál. Ætti kórinn að senda aumingja Bjarti sem greinilega hefur verið hunsaður í allan vetur allar sms sendingarnar sem fóru forgörðum ? :o)