gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

miðvikudagur, desember 31, 2008

Andskotans "mótmælendur"...

Ef það er rétt sem Steingrímur J. var að segja núna rétt áðan í Kryddsíldinni sem fékk skjótan endi, að hópurinn sem stendur fyrir þessum "mótmælum" fyrir utan Hótel Borg sé þverskurður af þjóðinni, skil ég vel af hverju Íslendingar eru á lista yfir hryðjuverkamenn!!!

Gátu þessir "mótmælendur" nú ekki einu sinni leyft þessum umræðum flokksformannanna að flæða svo við hin gætum fengið einhver svör vegna ástandsins í efnahagslífinu? Nei, þeir þurftu endilega að efna til mótmæla að fyrirmynd heiftúðugra öfgamanna úr arabaheiminum og skemma þar með tækjabúnað Stöðvar 2 sem svo leiddi til þess að ekki var unnt að senda meira út frá Hótel Borg.

Svona mannsskapur á ekki neinn rétt á að kalla sig mótmælendur. Ég skammast mín fyrir ykkur. Vona svo sannarlega að enginn mér nærkominn hafi verið á meðal skemmdarverkamanna.

TAKK KÆRLEGA FYRIR, "MÓTMÆLENDUR"
Gleðileg jól og farsælt komandi ár...

Þá er árið senn á enda runnið. Þetta var erfitt ár en samt gerðust margir góðir hlutir. Geri það kannski upp í byrjun næsta árs því nú er að hefjast besti sjónvarpsþáttur íslenskrar sjónvarpssögu: Kryddsíldin. Þessum þætti má ég hreint út sagt ekki missa af. Í ár verður hann alveg örugglega með fjörugra móti en verið hefur. Bíð því spenntur eftir að heyra og sjá álit allra stjórnmálaleiðtoga landsins, hvernig þeim fannst árið koma út fyrir sig persónulega og fyrir þjóðfélagið í heild. Hvernig sjá þeir næsta ár koma út? Við þessum spurningum fær maður svör þarna.

Síðan verður skundað yfir til Sindra og Lydíu og stelpnanna og hafist handa við að kokka matinn í kvöld sem er ekki af verra taginu: Nautalund með öllu tilheyrandi. Seinna um kvöldið er það svo skaupið og áramót á 11. hæð Solbakkans þar sem Kaupmannahafnarbúar munu skemmta okkur með skotgleði sinni.

laugardagur, desember 20, 2008

Jóla Jóla...

Þá er fjölskyldan komin til Íslands og þá hefst loksins mikil vinna. Mest busy dagar lífs míns eru einmitt um jólin held ég. Á morgun er boð, á mánudaginn er boð, á þriðjudaginn er söngur á Laugarvegi, á miðvikudag eru jól, á fimmtudag er jólaboð, á föstudag er ég jólasveinn í jólaboði, á laugardag er jólapartý og á sunnudag er flug heim til Danmerkur. S.s. ekki mikið hægt að slaka yfir hátíðar.

Annars er nú líka dálítið gaman að þessu. Það stefnir í að allir tengdasynir Ragnheiðar og Þórarins muni mæta á Bakkann i fyrsta skipti saman og þ.a.l. dæturnar líka. Það verður því margmenni hér á bæ. Tengdó bíða óneitanlega spennt yfir að hitta nýja tengdasoninn hann Martin sem sóttur var til Noregs. Hann kom í gærdag og svo komu Ágústa og Andy í nótt og eru að sofa úr sér ferðaþreytuna as we speak.

Nú er ég bara með Emilíu að leika á meðan Kristín er að læra. Já, greyið hún Kristín þarf að læra um jólin.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Pakka pakka...

Þá erum við að klára að pakka fyrir Íslandsferðina í kvöld. Fljúgum klukkan 20.30 að staðartíma og eigum að lenda í Keflavík kl. 22.50 að staðartíma.

Kristín er að sækja Emilíu á leikskólann núna og ég ætla að raka mig og hita smá kakó handa stelpunum mínum í kaffinu. Síðan verður skundað upp á Kastrup flugvöll um sex-leytið.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Ísland vs. Bandaríkin...

Ég hef séð víða á netmiðlum vangaveltur um aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna (Fed) í dag, þar sem hann lækkar stýrivexti sína niður í 0-0,25%. Margir spyrja hvers vegna Seðlabanki Íslands geti ekki farið sömu leið. Mig langar hér aðeins að grafast um fyrir þessu svona rétt fyrir jólahátíðina.

Eins og þeir sem lesa þetta blogg vita, þá er ég hlynntur því að Ísland hafi sinn eigin gjaldmiðil, krónuna í staðinn fyrir t.d. evru, vegna þess að seðlabankinn er mun betur í stakk búinn til að eiga við verðbólgu á Íslandi en ráðamenn í Frankfurt. Í fyrsta lagi er það af landfræðilegum toga, þar sem hagkerfi Íslands hegðar sér efnahagslega mjög ólíkt meginlandsþjóðum í Evrópu, einkum út af því að landið er mjög háð skipaflutningum og flugsamgöngum og þ.a.l. innflutningi. Í öðru lagi eru stýrivextir sem ákveðnir eru af Seðlabanka Íslands einkum í takt við verðbólguna á Íslandi hverju sinni. Ef þeir yrðu ákveðnir á meginlandinu, yrðu þeir mun lægri og ákvörðun þeirra því talsvert minna í samræmi við verðbólguna á Íslandi. Eins og gefur að skilja reynir Evrópusambandið að taka lönd inn sem hafa svipaða verðbólgu og hin löndin sem fyrir eru svo peningastefna Evrópusambandsins virki eitthvað. Fleiri ástæður eru til en ég ætlaði ekki að tala um það í raun.

Það sem ég hef séð í dag var að FED var að lækka stýrivextina sína. Skýringarnar fyrir þessu eru þær að einkaneysla, fjármunamyndun og iðnaður hafa dregist mikið saman. Einnig hafa fjármálamarkaðir verið veikir sem og lánamarkaðir. Almennt séð hefur þó atvinnumarkaðurinn verið í mikilli lægð, sem lýsir sér í auknu atvinnuleysi þar ytra. Feddinn hefur atvinnustigsmarkmið og því túlka ég þessa aðgerð sem svo að Bernanke og hans menn noti nú tækifærið á meðan fjármálamarkaðir eru slappir til að örva einmitt vinnumarkaðinn.

Ég held að þetta megi túlka sem jákvæðar fréttir, en ég held að þeir megi passa sig á að vera ekki of lengi með vextina svona lága ef fjármálamarkaðir taki nú við sér. Mögulega gæti það þá hrundið af stað lausafjárvanda sem lýsir sér þannig að fjármagn streymi hratt út úr landi, verðbólga dvíni og geti orðið að verðhjöðnun, sem þýddi þá að Feddinn væri kominn í gildru (e. liquidity trap) og þannig ekki getað hækkað vextina. Þeir munu nú trúlega passa sig á því, efast ekki um það.

Ég held að Seðlabanki Íslands sé í smá gildru á hinum pólnum. Stýrivextir eru 18% og verðbólga er 17,1%. Sem sagt einhverjir hæstu stýrivextir sem um getur í heiminum en á sama tíma mjög lágir raunstýrirvextir (18%-17,1%=0,9%, skv Fisher nálgun). Einhvers staðar las ég að það væri raunhagkerfið sem skipti máli og þá er þetta alls ekki góð ávöxtun umfram verðbólgu fyrir þá sem vilja um leið taka smá gjaldeyrisáhættu. Út af þessu getur Seðlabanki Íslands ekki lækkað vexti því raunstýrivextir mega ekki vera neikvæðir.

Nú spyrja ábyggilega margir: En af hverju ekki? Mun það þá ekki leiða til fjármagnsflótta sem væri bara góður í svona árferði? Nei, þetta er nákvæmlega það sem Seðlabankinn hefur reynt að varast með gjaldeyrishöftum en til dæmis ekki mikilli hækkun vaxta. Lækkun vaxta myndi grafa enn meira undan krónunni og þá væri nú ástandið orðið tvíþætt því það myndi einnig næra verðbólguna enn meir, þar sem miðlunarferli gengisbreytinga inn í nnlent verðlag virðist vera ógurlega hratt í tilfelli Íslands. Ástæðan; mikill viðskiptahalli undanfarinna ára.

Séð er fyrir að verðbólgan fari vel upp í 20% nú um áramótin, einkum vegna jólanna og gengislækkunarinnar. Þetta gæti því kallað á enn meiri hækkun stýrivaxtanna, því eins og ég sagði, þá mega raunstýrivextir ekki verða neikvæðir. Þetta er því vissulega erfitt ástand.

Ég vil þó trúa því að fréttirnar frá Bandaríkjunum reynist jákvæðar, þar sem Seðlabanki Bandaríkjanna hefur séð vinnumarkað og þ.a.l. einkaneyslu dragast saman, sem svo hefur dregið úr verðbólgu. Það er nú fyrst og fremst það sem er að gerast á Íslandi nú um stundir. Oft virðist fiðrildið blaka vængjunum fyrst í Bandaríkjunum sem veldur svo ofsaveðri í Kína og vonandi fær Ísland smá veður af því. Með þessu meina ég að verðbólga minnki og mun auðveldara verður að húrra stýrivöxtum niður.

En með háum vöxtum nú er ég líka að vona að hægt verði að auka á bjartsýni áhættufjárfesta og styðja við gengi krónunnar sem er eitt helsta vandamálið sem Seðlabankinn og stjórnvöld glíma við í dag. Ég ætla að leyfa mér að treysta stjórnvöldum til þess að leysa málin, fagfólkið er til staðar, þess vegna er ekki líklegt að ég muni sjást á Austurvelli með spjald á lofti.

mánudagur, desember 01, 2008

Ég er ekki húmorslaus...

... þótt efnahagsleg áföll, sem ég tek talsvert nærri mér, duna yfir.
Þetta er samt fyndið!!!