gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

föstudagur, september 05, 2008

Af virkjunum, rýrnandi eignum og flótta frá landi voru...

Var að lesa áhugaverðan bloggpistil ágæts manns sem þekkir til virkjana og raforkuverðs þar sem hann er að velta því fyrir sér af hverju raforkuverð hækkar svona mikið (um 15% hækkun síðustu misseri nefnir hann). Þar kemur hann með ansi fínar staðreyndir sem gott er að hafa í huga þegar velt er fyrir sér af hverju verðið hefur hækkað svona.

Þarna kemur sú staðreynd fram að virkjanir á borð við Búrfellsvirkjun, og þær í Soginu (Írafoss og Ljósafoss væntanlega) séu nú búnar að borga sig upp, enda orðnar 30 ára gamlar. Þetta skiljum við sem svo að nú sé hreinn arður sem fer í vasann á þeim sem eiga. En þar kemur einmitt kjarni málsins. Þjóðin á þessi fyrirbæri og stjórnvöld velja þvert á móti þá leið að hækka verðið á raforku til okkar (skýringarnar á því má nú væntanlega rekja til stóriðju) en gott og vel, fjármagnskostnaði er engu að síður velt yfir á þjóðina. Ekki mikill ávinningur fyrir eigendur í þessu dæmi.

Ég er orðinn hinn mesti rólegheitamaður þegar ræða á um einkavæðingu, t.a.m. er ég ekki mjög hrifinn af einkavæðingu heilbrigðis- og menntakerfis nema þá að takmörkuðu leiti, en spurning með svona virkjanaframkvæmdir. Hlutafélagaformið virðist yfirleitt henta vel þeim sem vilja og geta tekið áhættu og ábyrgð á framkvæmdagleði sinni og lýsir sér best í því að þegar vel árar renna aurar í vasann en þegar illa árar er gat á vasanum. Það að virkjanir (Landsvirkjun) eru almenningseign virðist hér ekki vera að skila þeim ágóða sem reyndin hefur verið í vasa okkar þegnana og því er ég að velta fyrir mér hversu heppilegt sé að hafa slíkar stofnanir á almenningseignarformi.

Annars var bein fjárfesting íslendinga erlendis að bíða hnekki og því ljóst að kreppan er eitthvað að minna á sig. Spurning hvernig fer fyrir krónunni í dag, mér þykir næsta víst að hún eigi eftir að veikjast.

Slæmur dagur s.s. og ekki vel valinn til að hætta að vinna og kannski ekki mjög göfugt að vera að flýja land en við Kristín og Emilía Ólöf höldum til Baunalands á mánudagsmorgun. Munum sakna ykkar allra og þess frábæra sumars sem við höfum átt með ykkur öllum.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim