gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

mánudagur, júlí 10, 2006

Loks fékk maður tækifæri til að sjá Ítalina vinna þetta...

Þá er veislan búin þetta árið (HM veislan þ.e.). Hefur verið alveg frábær keppni, að minnsta kosti það sem ég hef séð af leikjunum. Úrslitaleikurinn var að mínu mati eins og þeir geta gerst bestir. Miklar ógnir á báða bóga, frábær varnarleikur Ítala og unaðslega vel framkvæmdar spyrnur Pirlos tel ég að hafi verið lykillinn í leik Ítala. Gattuso og Cannovaro, ásamt Pirlo áberandi bestir í ítalska liðinu.

Ég held að margir geti verið sammála mér í því að atburðarásin í leiknum hefði orðið allt önnur ef Materazzi hefði ekki verið á vellinum. Hann skallar boltann í netið og jafnar metin snemma í leiknum og er svo skallaður sjálfur (eða kannski stangaður öllu heldur) um miðjan seinni hálfleik framlengingar af engum öðrum en Zinedine Zidane. Þarna er ég auðvitað að vísa í atvikið sem er og verður skeggrætt á kaffistofum flestra vinnustaða heimsins næstu daga.

Eins og bent var á, á einhverjum vefmiðlinum, þá var búist við svanasöng Zidanes þar sem þetta var hans síðasti knattspyrnuleikur sem atvinnumaður. Það stefndi nú í það, þar sem kappinn skoraði úr einstaklega vel útfærðu víti á 6. mínútu. Þar með taldi ég að hann væri vaknaður og myndi nú aldeilis skrá sig í sögubækur með heimsklassa spilamennsku. Það skal ekki tekið af Zidane að hann spilaði þennan umrædda leik af mikilli yfirvegun og færni og var sem kóngur í ríki sínu á miðjunni. Fyrirliðinn franski átti einnig eitt besta færi sem sést hefur í toppklassaleik sem þessum um miðbik fyrri helmings framlengingar. Sending kom inn á teiginn og tókst kallinum að skalla fastan bolta sem Buffon, markvörður Ítala, mátti hafa sig allan við, við að verja. Trúlega hefði þetta verið mikilvægasta mark sem Zidane hefði skorað ef boltinn hefði leitað yfir marklínuna, en allt kom fyrir ekki. Seinni helmingur framlengingar hefst og um hann miðjan á Zidane annan skalla. En þessi skalli stytti feril Zidanes um nokkrar mínútur þar sem skallinn hafnaði í brjóstkassa Materazzis hins ítalska bakvarðar og marksskorara Ítala.

Oft á tíðum þróast fótboltaleikir í þá átt að lið sem hafa yfirhöndina í leiknum, fara að spila leikinn á frekar leiðinlegan hátt. Nefni ég dæmi um það að menn fara að liggja lengur í grasinu eftir tæklingar til að tefja leikinn. Frekar leiðinlegt áhorfs, sem og leiðinlegt fyrir væntanleg taplið sem eru að reyna að gera allt í sínu valdi til að skora jöfnunarmörk.

Í þessum leik horfði reyndar ekki svona við, þ.e. hvorugt lið sá fram á að sigra í leiknum úr því sem komið var og var vítaspyrnukeppni orðin fyrirséð. Materazzi var til að mynda einn af þeim ítölum sem gerðu sér grein fyrir þessu. Þessi ítalski bakvörður hefur því miður orð á sér að vera ei orðfagur og trúlega var þessi leikur engin undantekning á því hátterni hans. Úr því að leikurinn var kominn í þessa stefnu, þá akveður hann að læða vel (eða illa) völdum orðum að Zidane (eflaust allan tímann) og að því er virðist klípa í hann og urðu afleiðingarnar rautt spjald fyrir Zidane sem greinilega stóð ekki á sama eftir þessi orð Materazzis. Með þessum hætti kom Materazzi liði sínu til hjálpar þar sem besta vítaskytta Frakkana var nú ekki lengur með umboð til að sparka knettinum meira.

Knattspyrnuleikur snýst um leikáætlanir og dagsform leikmanna og má því segja að lymskubragð eins og það að veiða hinn leikreynda Zidane í slíka gildru sé hin þokkalegasta leikáætlun. Sumir myndu segja þetta vera óþverrabragð en aðrir brilljant strategíu. Til að veikja varnir óvinaþjóðar sem mest er yfirleitt best að vinna á mikilvægasta skotmarkinu, nefnilega sjálfum Zinedine Zidane og það greinilega tókst hjá herkænskusnillingnum Materazzi.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim