gemill

Guðjón Emilsson heiti ég. Nemi i Kaupmannahofn.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Eldur eldur...

Vaknaði á áttunda tímanum í morgun við það að einhver fyrir utan gluggann minn hrópaði í sífellu: "eldur, eldur..." og "íbúðin er full af reyk, drullið ykkur út..." . Við þetta spratt ég á lappir til að kanna hvað væri á seyði. Ekki virtist nú vera neitt að hjá okkur á Víðmel 64. Sá sem var að kalla þetta var nágrannasonurinn (um tvítugt) sem kominn var út á náttfötunum sínum og kvartaði sáran undan reykeitrun og hóstaði mikið. Honum virtist talsvert brugðið þar sem hann gekk fram og aftur í einhverri örvilnan. Aumingjans stráknum sem virtist greinilega ekki vera að höndla ástandið gekk líka eitthvað illa að fá fólkið sem inni var, út úr húsinu og var næsta skrefið hjá mér að ýta á 1 1 2 á símanum, þar sem málið virtist alvarlegt.

Aldrei sá ég reyk leggja frá íbúðinni en var þó búinn að grípa símann. Rétt áður en ég var byrjaður að hringja, var strákurinn þó búinn að því, svo að ég hætti við. Næstu mínútur voru hreint magnaðar. Klukkan var u.þ.b. 07.20 þegar hann hringdi og ég held að klukkan hafi ekki verið nema um 07.24 þegar lögreglubíll með sírenur kom inn í götuna og tveir lögreglumenn hlupu út úr bílnum og inn í húsið. Brátt kom svo slökkvibíll með tveimur slökkviliðsmönnum og einum reykkafara. Það er ekkert smá hvað þessir drengir eru miklir fagmenn, tóku strax stjórn á ástandinu, þar sem greyið strákurinn átti mest erfitt með sjálfan sig. Öryggið á staðnum jókst umtalsvert. Þeir voru ekki lengi að koma fólkinu út, sem var tvennt, kona á sextugsaldri og aldraður maður sem gekk við staf.

Svo virtist vera að um smávægilegan eld og reyk hefði verið að ræða. Eldsupptök hafa trúlega verið inni á baðherbergi, miðað við það sem ég heyrði a.m.k. og út frá hárblásara eða einhverju slíku.

Eftir að reykkafarinn hafði lokið sínu verki um 07.42 voru þeir á bak og burt og ró skapaðist á nýjan leik og mér þótti best að fara að týja mig í vinnuna. Betur fór en á horfðist. Hvað það getur verið óþægilegt að vakna á þennan hátt.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim